Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Ríkisútvarpið ohf. hafi brotið gegn c-lið 2. mgr. 28. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 með því að hafa gert þáttaröðina Exit, sem er bönnuð börnum yngri en 16 ára, aðgengilega öllum í spilara RÚV á vefnum ruv.is án möguleika á aðgangsstýringu.
Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli kvörtunar f.h. Símans hf. þar sem kvartað var yfir ætluðu broti Ríkisútvarpsins ohf. gegn ákvæði c-liðar 2. mgr. 28. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 um vernd barna gegn skaðlegu hljóð- og myndmiðlunarefni eftir pöntun með því að hafa gert norsku þáttaröðina Exit, sem er bönnuð börnum yngri en 16 ára, aðgengilega öllum í spilara RÚV á vefnum ruv.is án möguleika á aðgangsstýringu efnisins.
Í ákvörðun fjölmiðlanefndar kemur fram að ótvírætt sé að þáttaröðin Exit telst vera myndefni eftir pöntun og miðlun hennar myndmiðlun eftir pöntun, sbr. annars vegar c-lið 2. mgr. 28. gr. og hins vegar 30. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um fjölmiðla. Atriði í þáttunum séu einkar gróf og í lýsingu í spilara RÚV kemur fram að þeir séu „alls ekki við hæfi barna“. Er þáttaröðin bönnuð börnum yngri en 16 ára og merkt með rauðu sjónrænu merki uppi í hægra horni hvers þáttar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 28. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 sé einungis heimilt að miðla efni eftir pöntun sem ekki er talið við hæfi barna að því tilskildu að tryggt sé með viðeigandi tæknilegum ráðstöfunum að börn hafi ekki aðgang að efninu. Slíkar tæknilegar ráðstafanir séu ekki fyrir hendi í spilara RÚV á vefnum ruv.is. Að mati fjölmiðlanefndar sé það því andstætt ákvæði c-liðar 2. mgr. 28. gr. laga um fjölmiðla að gera þáttaröðina Exit aðgengilega öllum í spilara RÚV á vefnum ruv.is án möguleika á aðgangsstýringu.
Fjölmiðlanefnd taldi ekki ástæðu til að falla frá sektarákvörðun í málinu. Um alvarlegt brot væri að ræða þar sem gróf þáttaröð bönnuð börnum yngri en 16 ára var gerð aðgengileg öllum í spilara RÚV á vefnum ruv.is án möguleika á aðgangsstýringu. Var það mat fjölmiðlanefndar að Ríkisútvarpið ohf. hafi gert sér fulla grein fyrir því að um væri að ræða gróft efni sem ekki væri við hæfi barna. Við ákvörðun sektar var einnig tekið mið af því að rúmt ár er síðan fjölmiðlanefnd benti Ríkisútvarpinu ohf. formlega á skyldu c-liðar 2. mgr. 28. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 um að einungis sé heimilt að miðla efni eftir pöntun sem ekki er talið við hæfi barna að því tilskildu að tryggt sé með viðeigandi tæknilegum ráðstöfunum að börn hafi ekki aðgang að efninu. Með vísan til framangreinds taldi fjölmiðlanefnd hæfilegt að sektin næmi 1.200.000 kr. Með vísan til 1. mgr. 52. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 var Ríkisútvarpinu ohf. einnig gert að fjarlægja þáttaröðina Exit úr spilara RÚV á vefnum ruv.is fyrir 5. júní nk.