Hlutverk fjölmiðla í aðdraganda kosninga

Þann 27. júní nk. fara fram forsetakosningar hér á landi. Fjölmiðlar eru sérstaklega mikilvægir í aðdraganda lýðræðislegra kosninga og gegna lykilhlutverki við að veita almenningi hlutlægar fréttir og upplýsingar vegna hinnar lýðræðislegu ákvarðanatöku. Í lögum um fjölmiðla eru ekki að finna sérstök ákvæði um skyldur fjölmiðla í aðdraganda kosninga líkt og í flestum ríkjum álfunnar. Fjölmiðlanefnd hefur þó sent bréf til fjölmiðla í aðdraganda alþingiskosninga þar sem fjölmiðlar voru vinsamlega hvattir til að hafa 26. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 í huga og gæta þess að sjónarmið allra framboða fái að koma fram.


Í lögum um fjölmiðla ber helst að líta til fyrrnefndrar 26. gr. laganna um lýðræðislegar grundvallarreglur í aðdraganda kosninga. Reglan á sér hliðstæðu í flestum ef ekki öllum nágrannalöndum okkar en þar hefur hún verið kölluð sannleiks- og hlutlægnireglan. Ákvæði 26. gr. laga um fjölmiðla felur í sér stefnuyfirlýsingu um grundvallarreglur í fjölmiðlum og leggur skyldur fjölmiðlum á herðar. Samkvæmt 26. gr. laga um fjölmiðla skal fjölmiðlaveita í starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og standa vörð um tjáningarfrelsi. Með fjölmiðlaveitu er átt við einstakling eða lögaðila sem starfrækir fjölmiðil. Fjölmiðlaveita skal virða mannréttindi og jafnrétti, og einnig friðhelgi einkalífs nema lýðræðishlutverk fjölmiðlaveitu og upplýsingaréttur almennings krefjist annars. Fjölmiðlaveita skal gæta þess að uppfylla kröfur um hlutlægni og nákvæmni í fréttum og fréttatengdu efni og gæta þess að mismunandi sjónarmið komi fram, jafnt karla sem kvenna. Fjölmiðlaveitu sem hefur þá yfirlýstu stefnu að beita sér fyrir tilteknum málstað er þó óskylt að miðla efni sem gengur í berhögg við stefnu miðilsins.

Fjölmiðlanefnd hefur eftirlit með því að ákvæðum laga um fjölmiðla sé framfylgt. Eftirlit með 26. gr. laganna er þó frábrugðið öðrum ákvæðum þar sem engin viðurlög eru við brotum á því ákvæði. Frá árinu 2013 hefur fjölmiðlanefnd þó haft heimild til að birta leiðbeinandi álit vegna brota gegn ákvæðinu. Þetta er breyting frá því sem áður var þar sem brot á sambærilegu ákvæði í gömlu útvarpslögunum varðaði stjórnvaldssektum. 26. grein laga um fjölmiðla er því fyrst og fremst almenn stefnuyfirlýsing sem fjölmiðlum ber að hafa í heiðri.

Lög um fjölmiðla eiga við um Ríkisútvarpið eins og aðra fjölmiðla sem uppfylla skilyrði laganna. Um Ríkisútvarpið gilda einnig önnur lög og reglur þar sem ríkari skyldur eru lagðar á Ríkisútvarpið en aðra fjölmiðla í aðdraganda kosninga. Í 2. mgr. 3. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu nr. 23/2013 eru ákvæði um lýðræðislegt hlutverk Ríkisútvarpsins. Þar segir m.a. að Ríkisútvarpið skuli hafa í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur, þ.m.t. um mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Einnig á Ríkisútvarpið að veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga frétta- og fréttaskýringarþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni og almenning varða.

Í 7. tölul. 2. mgr. 3. gr. sömu laga má finna sérstakar skyldur Ríkisútvarpsins í aðdraganda kosninga. Þar segir að Ríkisútvarpið skuli kynna framboð til almennra kosninga, helstu stefnumál framboða, frambjóðenda og fylkinga eftir atvikum og greina ítarlega frá niðurstöðum kosninga. Þá skal það veita öllum gildum framboðum til Alþingis og forsetakosninga, sem og fylkingum í þjóðaratkvæðagreiðslum, jafnt tækifæri til að kynna stefnumál sín á hefðbundnum dagskrártíma í sjónvarpi. Ríkisútvarpið skal birta reglur þar að lútandi. Í alþingiskosningum er heimilt að takmarka útsendingartíma þeirra framboða sem ekki bjóða fram í öllum kjördæmum þannig að þau fái hlutfall af heildarútsendingartíma til samræmis við það hlutfall kjördæma sem þau bjóða fram í.

Í lögum um Ríkisútvarpið er einnig að finna hlutlægnireglu í 2. tölul. 4. mgr. 3. gr. þar sem segir að í starfsháttum sínum skuli Ríkisútvarpið ábyrgjast að sanngirni og hlutlægni sé gætt í frásögn, túlkun og dagskrárgerð, leitað sé upplýsinga frá báðum eða öllum aðilum og sjónarmið þeirra kynnt sem jafnast.

Í þjónustusamningi Ríkisútvarpsins við mennta- og menningarmálaráðuneytið 2016-2019, sem reyndar er fallinn úr gildi, kemur fram að Ríkisútvarpið skuli veita landsmönnum upplýsingar sem þeir eiga að geta treyst að dragi hvorki taum hagsmunahópa, stjórnmálasamtaka, einstaklinga né ákveðinna sjónarmiða. Með því móti geri Ríkisútvarpið fólki kleift að móta skoðanir sínar og draga ályktanir út frá réttum upplýsingum, eftir því sem framast er unnt hverju sinni. Ríkisútvarpið skuli flytja fréttir í tengslum við kosningar og mikilvæga stjórnmálaviðburði. Í samningnum er einnig fjallað sérstaklega um skyldur Ríkisútvarpsins í aðdraganda þeirra kosninga sem fóru fram á árunum 2016-2019. Þar segir að fyrir kosningar skuli Ríkisútvarpið miðla upplýsingum til landsmanna og koma skoðunum og málstað stjórnmálahreyfinga og frambjóðenda á framfæri. Ríkisútvarpið skuli greina frá framboðum, fjalla um frambjóðendur og stefnumál, fylgjast með kosningum og kosningarúrslitum og birta þau. Ríkisútvarpið skuli birta reglur um framkvæmd kosningaumfjöllunar eigi síðar en þremur mánuðum fyrir kjördag. Ef boðað er til kosninga með skemmri fyrirvara skuli Ríkisútvarpið birta reglur eigi síðar en tveimur vikum eftir að tilkynnt hefur verið um kosningarnar. Fyrir forsetakosningar skuli Ríkisútvarpið kynna alla frambjóðendur til embættisins með jafngildum hætti. Einnig skuli Ríkisútvarpið efna til umræðu og þáttagerðar þar sem frambjóðendur geta rætt um stefnumál sín. Táknmálstúlkun skuli fylgja sjónvarpsumræðum í aðdraganda kosninga. Að auki hefur Ríkisútvarpið sett ýmsar innanhússreglur, vinnureglur fréttastofu o.fl. Fyrir forsetakosningarnar sem fara fram þann 27. júní nk. hefur Ríkisútvarpið gefið út hvernig umfjöllun um kosningarnar verður háttað og má nálgast upplýsingar um það hér.

Ljóst er að frjálsir og óháðir fjölmiðlar í lýðræðisríki eru afar mikilvægir, sérstaklega í aðdraganda kosninga. Þannig er tjáningarfrelsi tryggt með 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og varið í 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur hefur verið hér á landi með lögum nr. 62/1994. Tjáningarfrelsinu fylgir þó einnig ábyrgð sem birtast m.a. í 26. gr. laga um fjölmiðla. Því er mikilvægt að almenningur sé sérstaklega upplýstur um þá ábyrgð sem lögð er á fjölmiðla með ákvæði laga um fjölmiðla um lýðræðislegar grundvallarreglur. Mikilvægt er að fjölmiðlar gæti að kröfum sem gerðar eru til þeirra um nákvæmni og hlutlægni í fréttum og fréttatengdu efni og að gæti þess að mismunandi sjónarmið komi fram í aðdraganda kosninga.