Tillögur fjölmiðlanefndar um stuðning við einkarekna fjölmiðla

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur samþykkt tillögur fjölmiðlanefndar um sérstakan rekstrarstuðning við einkarekna fjölmiðla, til að mæta efnahagsáhrifum heimsfaraldurs kórónaveiru. Þetta kom fram í tilkynningu mennta- og menningarmálaráðuneytisins á vef Stjórnarráðs Íslands í gær. 

Alþingi samþykkti síðastliðið vor að verja 400 milljónum kr. til verkefnisins og fól ráðherra að setja reglugerð með stoð í 9. gr. laga nr. 37/2020. Í reglugerð ráðherra frá 3. júlí 2020 var fjölmiðlanefnd falin umsýsla málsins. Nefndin auglýsti eftir umsóknum 10. júlí sl. og rann umsóknarfrestur út 7. ágúst. Alls bárust 26 umsóknir um sérstakan rekstrarstuðning, þar af 25 frá fjölmiðlaveitum og ein frá félagi sem ekki telst fjölmiðlaveita í skilningi laga um fjölmiðla. Umsóknir frá 23 fjölmiðlaveitum uppfylltu skilyrði reglugerðarinnar. Nánari upplýsingar um tillögur fjölmiðlanefndar er að finna hér: 

Tillögur fjölmiðlanefndar um úthlutun sérstaks rekstrarstuðnings til einkarekinna fjölmiðla

Fjölmiðlar sem starfrækja staðbundna fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins gátu jafnframt sótt um styrk úr byggðaáætlun. Ellefu slíkar umsóknir bárust og verður tilkynnt um úthlutun þeirra styrkja á næstunni, samkvæmt því sem fram kemur á vef Stjórnarráðsins.