Íslendingar treysta sérfræðingum og innlendum fjölmiðlum

Íslendingar treysta sérfræðingum og innlendum fjölmiðlum til að miðla áreiðanlegum upplýsingum um kórónuveiruna en leggja lítinn trúnað á upplýsingar á samfélagsmiðlum. Þá hefur þriðjungur landsmanna séð margar rangfærslur og misvísandi upplýsingar um kórónuveiruna, aðallega á samfélagsmiðlum. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í skýrslu vinnuhóps Þjóðaröryggisráðs um upplýsingaóreiðu og COVID-19, sem birt var síðastliðinn föstudag.

Í skýrslunni segir að vinnuhópurinn hafi staðið fyrir tveimur könnunum í júní og ágúst á þessu ári, í samvinnu við könnunarfyrirtækið Maskínu, um traust á upplýsingum og dreifingu upplýsinga um COVID-19. Niðurstöðurnar eru sagðar veita góða yfirsýn yfir dreifingu upplýsinga um sjúkdóminn, traust til upplýsingaveitna og þær misvísandi og röngu upplýsingar sem eru í umferð. Kannanirnar tvær tóku mið af sambærilegum könnunum sem gerðar hafa verið erlendis, m.a. á Norðurlöndunum, í Bretlandi, Bandaríkjunum, Þýskalandi og á Spáni.

Hvergi meira traust til sérfræðinga

Íslendingar telja sig flestir vera mjög eða fremur vel upplýsta um kórónuveiruna og COVID-19 og treysta sérfræðingum og innlendum fjölmiðlum til að miðla réttum upplýsingum. Traust til vísindamanna, lækna og annarra heilbrigðissérfræðinga mælist mun meira hér á landi en í ríkjum á borð við Bandaríkin, Bretland og Þýskaland, samkvæmt könnun Reuters Institute við Oxford-háskóla frá því í mars og apríl.

„ … hvergi sjást jafn háar tölur um traust og þríeykið fær á Íslandi (95,8% í júní og 95,3% í ágúst). Í Bretlandi sögðust 87% treysta sérfræðingunum, 80% í Bandaríkjunum, 74% í Þýskalandi, 84% á Spáni, 81% í Suður-Kóreu og 90% í Argentínu,“ segir í skýrslu vinnuhóps Þjóðaröryggisráðs. 

Traust til innlendra fjölmiðla á Íslandi mældist 82,6% í júní og 82,1% í ágúst. Til samanburðar leiddi könnun Reuters Institute í ljós að 60% svarenda í Bretlandi sögðust treysta þarlendum fjölmiðlum, 52% í Bandaríkjunum, 58% í Þýskalandi, 51% á Spáni, 67% í Suður-Kóreu og 63% í Argentínu.

Traust á samfélagsmiðlum lægra en í samanburðarríkjum
Þá mælist traust á samfélagsmiðlum, til að miðla áreiðanlegum upplýsingum um kórónuveiruna og COVID-19, lægra hér á landi en í samanburðarríkjunum sex, samtals 9,4% í júní og 10,6% í ágúst. Í könnun Reuters Institute sögðust 14% svarenda í Bretlandi treysta samfélagsmiðlum, 25% í Bandaríkjunum, 15% í Þýskalandi, 23% á Spáni, 40% í Suður-Kóreu og 40% í Argentínu.

Erlendir fjölmiðlar nutu trausts hjá 42,7% þátttakenda í íslensku könnuninni í júní en 46,2% í ágúst. Alls treystu rúmlega 77% Vísindavef Háskóla Íslands, 77,1% í júní og 77,6% í ágúst og traust á ríkisstjórninni var 64,1% í júní og hafði aukist í 68,4% í ágúst.

Þriðjungur landsmanna sá margar rangfærslur
Samkvæmt könnun Maskínu hefur þriðjungur landsmanna séð/heyrt mjög eða fremur mikið af röngum eða misvísandi upplýsingum um kórónuveiruna og COVID-19. Af þeim sem höfðu séð/heyrt rangar eða misvísandi upplýsingar höfðu langflestir, eða tæp 80%, séð þær á samfélagsmiðlum, rúm 40% á erlendum fréttasíðum og tæplega 30% í íslenskum miðlum.

Í könnun Maskínu voru svarendur jafnframt spurðir að því hvaða leitarvélar og/eða samfélagsmiðla þeir hefðu notað til að nálgast fréttir eða upplýsingar um kórónuveiruna og sjúkdóminn COVID-19 frá því að fyrsta smit greindist á Íslandi. Langflestir höfðu notað Google (63,4%) og Facebook (37,1%) og mun færri YouTube (6,9%), Twitter (5,6%), Instagram (4,7%), Snapchat (1,3%) og TikTok (0,4%).

Mikilvægt að marka stefnu um miðlalæsi
Vinnuhópinn skipuðu þau: Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, Kjartan Hreinn Njálsson frá embætti landlæknis, Jón Gunnar Ólafsson, doktor í fjölmiðlafræði, Anna Lísa Björnsdóttir samskiptamiðlafræðingur, Guðrún Hálfdánardóttir blaðamaður, Þorgeir Ólafsson frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Sigurður Emil Pálsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, María Mjöll Jónsdóttir og Ólöf Hrefna Kristjánsdóttir frá utanríkisráðuneytinu. Þórunn J. Hafstein, ritari þjóðaröryggisráðs, leiddi starf hópsins. 

Í skýrslu vinnuhópsins kemur fram að rannsóknir og þekking á fjölmiðlum, fjölmiðlanotkun, fjölmiðlamarkaði og gildi nýrra miðla sé forsenda þess að hægt sé að marka samræmda stefnu stjórnvalda um miðlalæsi fyrir alla aldurshópa.

„Markviss kennsla í miðlalæsi getur tengst skólastarfi en einnig er mikilvægt að koma á kennslu í miðlalæsi hjá öðrum aldurshópum, ekki síst í elsta aldurshópnum þar sem rannsóknir sýna að auka þarf færni hans á þessu sviði. Auka þarf þekkingu á málaflokknum og stuðla að símenntun kennara og leiðbeinanda um miðlalæsi,“ segir í skýrslunni sem er aðgengileg hér:

Skýrsla vinnuhóps Þjóðaröryggisráðs um upplýsingaóreiðu og COVID-19