Ríkisútvarpið uppfyllti almannaþjónustuhlutverk sitt árið 2019

Fjölmiðlanefnd hefur afhent mennta- og menningarmálaráðherra og stjórn Ríkisútvarpsins mat sitt á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins fyrir árið 2019.

Samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið nr. 23/2013 er fjölmiðlanefnd ætlað að leggja sjálfstætt mat á það árlega hvort Ríkisútvarpið hafi uppfyllt almannaþjónustuhlutverk sitt.

Niðurstaða nefndarinnar er sú að Ríkisútvarpið hafi sinnt menningarlegu, lýðræðislegu og samfélagslegu hlutverki sínu í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í lögum um Ríkisútvarpið og þar með uppfyllt almannaþjónustuhlutverk sitt árið 2019.

Mat fjölmiðlanefndar fer fram með hliðsjón af 3. gr. laga um Ríkisútvarpið og samningi mennta- og menningarmálaráðherra og Ríkisútvarpsins, sem undirritaður var 1. apríl 2016 og gilti til 31. desember 2019.

Matið byggir auk þess á greinargerð Ríkisútvarpsins um fjölmiðlun í almannaþágu fyrir árið 2019, sem Ríkisútvarpið afhenti fjölmiðlanefnd 18. september 2020, og á ársskýrslu og ársreikningi Ríkisútvarpsins fyrir árið 2019.

Hér má nálgast mat fjölmiðlanefndar á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins 2019.