Nýtt hlaðvarp fjölmiðlanefndar

„Ástæðan fyrir því að við erum að ræða þessi mál núna er að við búum í allt öðru tækniumhverfi en áður. Það er miklu auðveldara að dreifa röngum og misvísandi upplýsingum á netinu og samfélagsmiðlum,“ segir Jón Gunnar Ólafsson nýdoktor í stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands í viðtali hjá Skúla B. Geirdal í nýju hlaðvarpi fjölmiðlanefndar sem nefnist „Fjórða valdið.“ En þáttunum er ætlað að varpa ljósi á málefni fjölmiðla og fjölmiðlunar út frá ýmsum sjónarhornum með viðtölum við fjölmiðlafólk, sérfræðinga og rannsakendur á sviði fjölmiðlunar.

„Það eru tvær ástæður fyrir því að við í fræðunum höfum verið að færa okkur yfir í að tala frekar um upplýsingaóreiðu en falsfréttir. Í fyrsta lagi er hugtakið orðið mjög pólitískt vegna þess að tilteknir stjórnmálamenn, sem vart þarf að nefna á nafn, hafa nýtt hugtakið til þess að slá á gagnrýni. Þeir hafa þannig reynt að draga úr trúverðugleika ákveðinna fjölmiðla með því að segja þá flytja falsfréttir. Í öðru lagi þá er þetta ekkert sérlega nákvæmt hugtak. Með því er ekki gerður greinarmunur á því af hverju er verið að dreifa röngum og misvísandi upplýsingum og þar fram eftir götunum,“ segir Jón Gunnar. Í fjölmiðlarannsóknum er upplýsingaóreiðu skipt í tvennt þar sem annars vegar er talað um „misinformation“ eða „misupplýsingar“ þar sem röngum upplýsingum er dreift án ásetnings og hinsvegar „disinformation“ eða „falsupplýsingar“ þar sem röngum upplýsingum er dreift vísvitandi. Þá hefur þriðja anganum sem nefnist „malinformation“ eða „meinupplýsingar“ gjarnan verið bætt við, en það er þá þegar að réttum upplýsingum er dreift í annarlegum tilgangi.

Mikilvægt að skoða hvort starfsaðstæður fjölmiðla ýti undir falsfréttir

„Falsfréttir eru þá ekkert alltaf bara fréttir heldur getur hugtakið átt við alls konar bull. Ég hef verið að skoða þetta í mínum rannsóknum þar sem ég hef m.a. tekið viðtöl við blaðamenn. Í einni slíkri alþjóðlegri rannsókn leggjum við sérstaka áherslu á „misinformation“ (misupplýsingar). Ástæðan fyrir því er sú að við erum að skoða hvort blaða- og fréttamenn séu stundum óvart að deila röngum og misvísandi upplýsingum í samhengi við starfsaðstæður sem þeir búa við í dag. Þar sem sem að hraðinn er orðinn mun meiri,“ segir Jón Gunnar.

Nýta sér samfélagsmiðla sem heimildir í fréttum

Í nýrri skýrslu fjölmiðlanefndar um falsfréttir og upplýsingaóreiðu, sem byggir á víðtækri spurningakönnun Maskínu, kemur fram að átta af hverjum tíu sögðust hafa rekist á upplýsingar á netinu á síðustu 12 mánuðum sem þau hafi efast um að væru sannar. Þá höfðu sjö af hverjum tíu  rekist á upplýsingaóreiðu/falsfréttir um kórónaveirufaraldurinn á netinu. Af þeim rákust langflestir á slíkt á Facebook, eða 83,1%. Jón Gunnar bendir á að það þurfi að skoða stöðu fjölmiðla sérstaklega í þessu netumhverfi sem við búum við í dag. „Blaða- og fréttamenn eru í dag mjög mikið að nýta sér samfélagsmiðla sem heimildir í fréttum. Í dag er á sama tíma orðin mun meiri krafa um hraða á netinu. Það hefur auðvitað alltaf verið keppni um að vera fyrstur með fréttirnar en hraðinn yfir daginn allan er orðin miklu meiri en hann var.“

Jafna sem gengur ekki alveg upp

„Það sem blaða- og fréttamenn hafa verið að segja við okkur í þessum alþjóðlegu rannsóknum er að með þessa ofgnótt upplýsinga sem þeir eru að fá frá samfélagsmiðlum og víðs vegar annarsstaðar þurfi þeir að vanda sig ennþá meira, passa hvað sé satt og rétt og kafa betur ofan í málin. Á sama tíma eru færri blaðamenn og mikill niðurskurður á fjölmiðlum. Þannig að þarna er jafna sem gengur ekki alveg upp,“ segir Jón Gunnar og bætir því við að þetta þurfi að ræða betur og rannsaka ennþá frekar.

Allt viðtalið við Jón Gunnar má nálgast hér inná Spotify og í myndformi hér fyrir neðan: