Tjáningarfrelsi í athugasemdakerfum

„Mér finnst vanta mjög áþreifanlega umræðu um hvernig við tjáum okkur á netinu. Þá er ég að tala um yngra fólk og umræðu um miðlalæsi sem við erum auðvitað að verða meira upptekin af,“ segir Halldóra Þorsteinsdóttir héraðsdómari og sérfræðingur í fjölmiðlarétti í hlaðvarpi Fjölmiðlanefndar í ljósi nýrrar skýrslu sem kom út á dögunum um haturstal og neikvæða upplifun af netinu sem má nálgast hér.

„Ef fólk er mjög meðvitað um reglurnar þá sýnir það stundum ákveðið sinnuleysi gagnvart þeim. Við sjáum að fólk tjáir sig öðruvísi á netinu í athugasemdakerfum og einstökum ummælum hér og þar heldur en ef það myndi hitta viðkomandi út í búð,“ segir Halldóra og bætir við að í raun sé ekki svo langt síðan að netheimar komu til sögunnar og að þá hafi fólk sjálft ákveðið að þar væri meira frelsi en annarsstaðar án þess að hafa farið nægjanlega djúpt í leikreglurnar. „Mér finnst margir gera ráð fyrir að það sé meira svigrúm á netinu. Það má segja að þar sé viðurkenndari ákveðin skætingur en það breytir því hinsvegar ekki að hérna á Íslandi og almennt í Evrópu erum við með reglur sem taka á ummælum á netinu. Nákvæmlega eins og tekið væri á ummælum okkar í þessu viðtali hérna.“

Um fjórðungur þátttakenda í rannsókn Fjölmiðlanefndar hafði upplifað haturstal, 12,3% neteinelti, 11,5% háðung eða ögrun í athugasemdakerfum og 10% hótanir um ofbeldi. Aldurshópurinn 15-17 ára var þá í meiri hættu en aðrir aldurshópar til þess að hafa upplifað haturstal, neteinelti, háðung og hótanir.

Ekki til sú rannsókn sem segir minniháttar afleiðingar af haturstali

„Ég held að það megi gera fólk meðvitaðara um reglurnar, hvað þær fela í sér og afleiðingarnar. Þú finnur ekki þá rannsókn út í heimi sem segir að það séu minniháttar afleiðingar af hatursfullu tali á netinu gagnvart ungu fólki. Þvert á móti sýna tölurnar að t.d. ungar konur upplifa mörg vandamál varðandi sjálfsmynd, sjálfsvirðingu, þunglyndi og kvíða afþví að það er aukin áhersla hjá ungu fólki á það hvernig þér er tekið í netheimum. Sjálfsmyndin tengist því hvernig talað er við þig og um þig,“ segir Halldóra og bætir við að vandinn sé þó ekki einungis til staðar hjá ungu fólki og að eldra fólk þurfi að axla ábyrgð með að sýna gott fordæmi, kenna og leiðbeina. Netið sé komið til að vera og því þurfum við meðvitað að reyna að koma umræðunni þar í betri farveg.

Helmingur þátttakenda í könnun Fjölmiðlanefndar sagðist hafa orðið varkárari í að lýsa skoðunum sínum í umræðum á netinu í kjölfar háðs eða ögrunar, 32,8% sögðust frekar taka þátt í umræðum í lokuðum hópum og 20,6% hættu að taka þátt í umræðum á netinu. Þar sem netið er mikilvægur samskiptavettvangur í lýðræðislegri umræðu má telja alvarlegt ef hluti fólks telur sig verða fyrir áreiti, neteinelti eða haturstali og veigrar sér jafnvel við því að taka þátt í opinberri umræðu.

Við þurfum ekkert að vernda tjáningarfrelsi þegar að hatursumræða á í hlut

„Um leið verður auðvitað að halda því til haga að það á ekki að fara að stunda einhverja ritskoðun á netinu. Þetta snýst um að tjáningarfrelsið fái notið sín og að allir fái að tjá sig eins og þeir vilja, en það verður þó að vera í samræmi við ákveðin grunngildi. Það má ekki gleyma því að ástæðan fyrir því að við erum með tjáningarfrelsi, tjáum okkur og eigum að geta tjáð okkur er t.d. aðhald með hinu opinbera og að sannleikurinn fái litið dagsins ljós þ.e.a.s. að við segjum það sem er rétt. Þegar að við horfum á dómaframkvæmd þá er verið að vernda tjáningarfrelsið til þess að vernda þessi grunngildi. Við þurfum ekkert að vernda tjáningarfrelsi þegar að hatursumræða á í hlut,“ segir Halldóra.

Í skýrslunni kemur fram að mun meira er um haturstal, neteinelti, ögranir og háðung í athugasemdakerfum á Íslandi en í Noregi þegar að niðurstöðurnar eru bornar saman við sambærilega rannsókn sem gerð var þar. Í Noregi mældist töluverð aukning á upplifun af haturstali þar sem hlutfallið fór úr 2% fyrir tveimur árum síðan upp í 7%. Á Íslandi höfðu 24% þátttakenda upplifað haturstal.

Reglulega koma upp tilvik á gráu svæði

„Þetta er í stöðugri þróun og það má ekki gleyma því að ekkert meiðyrðamál er eins því ummælin eru eins ólík og þau eru mörg. Þannig að það er svo erfitt að segja að það sé einhver skýr lína. Við erum með viðmið og meginreglur sem við tileinkum okkur. Við eigum þá dómaframkvæmd sem er mjög rík bæði hérna heima og hjá Mannréttindadómstólnum. Þar er hægt að styðjast við mjög mikið en það koma samt alltaf reglulega upp tilvik sem eru á gráu svæði,“ segir Halldóra.

Aðeins fjórðungur þátttakenda í rannsókn fjölmiðanefndar varð ekki fyrir neinum áhrifum af ögrun eða háðung í athugasemdakerfum. Það er því ljóst að við búum við umhverfi á athugasemdakerfum sem þarfnast úrbóta svo allir geti tekið þar þátt í umræðum. En hvað er til ráða til þess að halda sig frá þessu gráa svæði?

Notaðu tjáningu til þess að sannleikurinn fái litið dagsins ljós.

„Það er gott að hafa í huga að ljúga ekki uppá fólk. Það er svona eitt lykilviðmið í þessum málum að það er almennt heimilt að segja frá því sem er satt og rétt. Ekki segja um einhvern hafi t.d. svikið undan skatti bara til þess að ná sér niður á viðkomandi. Ekki nota tjáningu í hefndarskyni. Ekki nota tjáningu til þess að níða af þeim skóinn eða í einhverjum eineltistilburðum. Notaðu tjáningu til þess að sannleikurinn fái litið dagsins ljós. Notaðu tjáningu til þess að tjá þínar hugsanir og skoðanir. Skoðunin getur alveg verið sú að forsætisráðherra sé leiðinleg eða eitthvað slíkt. Það er þá bara skoðun og skoðanir eru mönnum almennt að vítalausu. Notaðu tjáninguna t.d. til að fjalla um hið opinbera og það hvernig ríkisstjórn, alþingi og dómstólar halda á stjórn ríkisins og veita þannig löggjafarvaldinu, dómsvaldinu og framkvæmdavaldinu aðhald,“ segir Halldóra.

Við vitum í kjarnanum okkar hvar línan liggur

„Við megum stundum aðeins bremsa okkur af en um leið ekki þannig að við séum að þagga niður okkar tjáningu því það er frábært að hún fái að njóta sín. Það er gott að hafa það í huga að við erum með tjáningarfrelsi og síðan erum við með ákvæði í stjórnarskránni sem mælir fyrir um bæði takmörkun á þessu tjáningarfrelsi í þágu réttinda annarra og friðhelgi einkalífs. Við verðum að passa að ganga ekki á þann rétt fólks. Við vitum þetta í kjarnanum okkar hvar línan liggur en það eru auðvitað vafatilvik. Þannig að við þurfum aðeins að passa okkur. Það er ekki þannig að tjáningarfrelsi séu algjör réttindi og síðan ekki söguna meir, þetta er miklu flóknara,“ segir Halldóra.

Ungar konur á aldrinum 15-17 ára eiga helst á hættu að verða þvingaðar til að senda myndir af sér og aðrar persónulegar upplýsingar, ásamt því að verða fyrir myndbirtingum á netinu gegn vilja þeirra samkvæmt skýrslu Fjölmiðlanefndar.

Dómstólar geta ekki dæmt þannig að þeir dæmi eftir tilfinningunni

„Það er ótrúlegur titringur núna í samfélaginu um allan heim. Fólki finnst réttarkerfið hafa brugðist og þessvegna þurfi það að taka lögin í eigin hendur. Við búum við réttindi í réttarkerfinu sem eru jafn mikilvæg og tjáningarfrelsið, friðhelgi einkalífs og öll stjórnarskrárvarin réttindi þ.e.a.s. rétturinn til þess að sæta réttlátri málsmeðferð og þetta með saklaus uns sekt sannast,“ segir Halldóra. Mjög ríkar sönnunarkröfur gilda um mál sem fer fyrir dómstóla. Halldóra segir að það sé ýmislegt sem við höfum gert upp við okkur að þessu leyti og það beri að hafa í huga alþjóðlegar skuldbindingar sem þurfi að halda í heiðri. Að ákæruvaldið haldi þessvegna ekki af stað með mál þar sem að það eru meiri líkur á því að sök sannist ekki. „Fyrir því geta verið margar ástæður t.d. getur verið að málið sé það gamalt eða að sönnunargögnin dugi ekki til þar sem þau eru bara orð gegn orði. Umræðan verður auðvitað að sýna mildi í þessum staðreyndum. Við getum ekki breytt þessu kerfi. Löggjafarvaldið mætti aldrei mæla fyrir um reglur sem að breyta þessu. Dómstólar geta ekki dæmt þannig að þeir dæmi eftir tilfinningunni eða útfrá einungis einni frásögn. Því miður getur maður oft sagt afþví að í mörgum tilvikum þá gerðist eitthvað en það er bara ekki sýnt fram á það og við vitum það. Við komumst bara ekki lengra með kerfið. Við getum ekki breytt þessu vegna þess að það eru svo mörg önnur réttindi sem við verðum að hafa í huga.“

Við eigum rétt á að segja satt og rétt frá

Halldóra tekur þá dæmi um mál þar sem einstaklingur er sakaður um kynferðisbrot en síðan sýknaður, ekki haldið áfram með málið eða málið fellt niður hjá lögreglu. Viðkomandi þolandi í slíku máli er ósáttur við þá niðurstöðu, fékk ekki bót sinna meina og fer þá leið að segja fá atvikinu upphátt. „Fyrir tuttugu árum síðan hefði verið mjög erfitt fyrir þennan einstakling að segja nokkuð upphátt útfrá lögunum afþví að viðkomandi gerandi var ekki með dóm á bakinu. Í dag erum við þó komin lengra að þessu leyti. Fyrsta skoðun dómstóla væri hvort viðkomandi hefði verið dæmdur fyrir eitthvað og í þessu tilviki er það ekki svo. En þá kemur til skoðunar hvort það sé eitthvað til í þessu. Ef við skoðum dómaframkvæmdina þá hefur hún verið að breytast á undanförnum árum á þá leið að konum, mönnum og börnum er að jafnaði að vítalausu að segja frá sinni upplifun ef hún er ekki gerð í vondri trú. Þannig að ég hefði, ef ég hefði lent í þessu og viðkomandi sýknaður fyrir dómi, í sjálfu sér rétt á að segja að ég hafi orðið fyrir broti af hálfu þessa manns. Ef hinsvegar það kemur á daginn að ég er að gera þetta til að ná mér niður á einhverjum, er ekki að segja satt og er að gera þetta í annarlegum tilgangi t.d. í forsjárdeilu þá verndar tjáningarfrelsið mig ekki.“

Ég má segja í hverju ég lenti en þú mátt það ekki

„Ég má segja í hverju ég lenti en þú mátt ekki segja upphátt frá mínum geranda nema þú vitir fyrir víst og getir sýnt fram á það, eða í öllu falli að einhver geti sýnt fram á það fyrir dómi að það hafi verið brotið gegn mér. Þarna helgast þetta af meginreglunni um að þú megir segja það sem er satt. Ég veit auðvitað ef það var brotið á mér og þá get ég sagt frá því. Ef ég er að segja satt og rétt frá, er ekkert að ýkja, gera meira úr því en er, nota það í annarlegum tilgangi eða breikka söguna að þá má ég það. En hvernig getur þú vitað að ég sé að segja satt? Þannig að þú sem annar einstaklingur, þriðji maður, veist það ekki og þarft því að gæta þín. Þetta er það sem við sjáum svolítið í dag á samfélagsmiðlum,“ segir Halldóra.

Allt viðtalið má nálgast hér: