Mikill munur á skilningi fólks á algóritmum og efnismarkaðssetningu

Um tveir af hverjum þremur þekkja algóritma (reiknirit) og hvernig slík tækni er notuð til að færa notendum efni á netinu en aðeins um fjórðungur kannast við og skilur hugtakið efnismarkaðssetning (einnig kallað inntaksmarkaðssetning sem á ensku er kallað „content marketing“). Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Fjölmiðlanefndar um ritstjórnarefni og auglýsingar sem byggir á niðurstöðum úr víðtækri spurningakönnun sem lögð var fyrir í febrúar og mars 2021.

Helmingur þátttakenda hafði fengið/séð auglýsingu á vöru sem þeir höfðu áður keypt, 43,4% hafði smellt á frétt sem reyndist vera auglýsing, 38,4% höfðu lent í því að fyrirtæki eða samtök höfðu safnað persónuupplýsingum um þau í markaðslegum tilgangi, 22,2% hafði greitt fyrir þjónustu/áskrift sem þau héldu að hefði verið sagt upp og 10,7% hafði látið plata sig til að kaupa eitthvað á netinu. Fylgni var þá, í öllum þáttum nema þeim síðastnefnda, milli tekna og menntunar þar sem hlutfallið var hæst meðal þeirra sem voru með hæstar tekjur og mesta menntun.

Færni fólks til að greina og vera gagnrýnið á heimildir er afar mikilvæg

„Þegar magn upplýsinga er mikið er mikilvægt að almenningur búi yfir færni til að greina uppruna upplýsinga og hvort upplýsingunum sé treystandi. Þá skiptir einnig máli að almenningur viti hvort um sé að ræða ritstjórnarefni, auglýsingar eða kostaða umfjöllun. Færni fólks til að greina og vera gagnrýnið á heimildir er afar mikilvæg. Þá skiptir jafnframt miklu máli að almenningur hafi þekkingu á því hvernig algóritmar samfélagsmiðlanna virka og hvernig efni er klæðskerasaumað að notendum á grundvelli m.a. persónuupplýsinga og áhugasviðs,“ segir Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar

Elsti aldurshópurinn ólíklegastur til að taka eftir markaðsaðgerðum á netinu

Helmingur (49%) þátttakenda í elsta aldurshópnum (60 ára og eldri) sagðist ekki hafa upplifað neina af þeim markaðsaðgerðum á netinu sem spurt var um í spurningakönnuninni, en til samanburðar var meðaltalið 20,5% í öðrum aldurshópum (15-59 ára). Þá var nokkur munur milli kynja þar sem konur voru líklegri en karlar til þess að hafa fengið auglýsingu um vöru sem þær höfðu áður keypt og til að láta blekkja sig til að kaupa eitthvað á netinu. Karlar voru hinsvegar líklegri en konur til þess að segja fyrirtæki og samtök hafa safnað um sig persónuupplýsingum í markaðslegum tilgangi og til þess að hafa greitt fyrir rafræna þjónustu sem þeir héldu að þeir hefðu áður sagt upp.

Samfélagsmiðlar og leitarvélar flokka notendur í 52.000 ólíka flokka

„Það er mikilvægt að byrja að átta sig á því að það eru margar ástæður fyrir því að við sjáum ekki öll það sama á netinu og það geta legið stórir hagsmunir þar að baki. Samfélagsmiðlar og leitarvélar flokka notendur í 52.000 ólíka flokka í samræmi við persónuupplýsingarnar sem safnað hefur verið um notendur. Þetta hljómar kannski eins og stór tala en þegar að við förum að skoða allar upplýsingar sem við gefum um okkur sjálf á netinu og bætum við því mynstri sem hægt er að lesa út úr hegðun okkar á netinu þá erum við fljótt komin með margar breytur. Þetta eru upplýsingar eins og t.d. aldur, búseta, vinir, áhugamál, menntun, tómstundir, hegðun, staðsetning, heilsa, smekkur og fjárhagsstaða. Með því að flokka allar þessar upplýsingar á skipulagðan hátt fá samfélagsmiðlar og leitarvélar aðgang að gríðarlega öflugu markaðstóli sem þeir geta nýtt til að selja ýmsum aðilum auglýsingar,“ segir Skúli B. Geirdal verkefnastjóri miðlalæsis hjá Fjölmiðlanefnd.

Mismunandi aðgerðir til þess að bregðast við markaðsaðgerðum á netinu

Flestir blokkuðu einstaklinga, stofnanir eða fyrirtæki (45,1%) til að bregðast við markaðssetningu/auglýsingum á netinu. Að breyta stillingum á samfélagsmiðlum var eitthvað sem 36,4% þátttakenda kannaðist við að hafa gert í þessum tilgangi, 23,8% settu upp póstsíur (filtera) fyrir tölvupóst, 9,1% vöruðu aðra við auglýsingu/viðskiptaboðum sem þeir sjálfir hefðu fallið fyrir og 6,5% kvartaði eða tilkynnti auglýsingu/viðskiptaboð til yfirvalda.

Töluvert fleiri segjast hafa skilning á algóritmum en efnismarkaðssetningu

Tæplega tveir af hverjum þremur (62%) sögðust kannast við hugtakið algóritmi (algrími)og skilja hvað það þýðir, 20,3% könnuðust við hugtakið en höfðu ekki skilning á því, 13,4% höfðu aldrei heyrt á það minnst. Þátttakendur voru þá spurðir að því hvort þeir könnuðust við hugtakið efnismarkaðssetningu (einnig kallað inntaksmarkaðssetning sem á ensku er kallað „content marketing“). Fjórðungur (25,8%) kannaðist við hugtakið og sagðist skilja þýðingu þess, 20,3% könnuðust við hugtakið en skildu ekki þýðingu þess, 45,9% höfðu aldrei heyrt á það minnst.

Einn af hverjum fimm flokkaði kostaða auglýsingu sem ritstjórnarefni

Þátttakendur fengu í spurningakönnuninni sjö raunveruleg dæmi um einstaka hluta forsíðunnar á Vísi og voru beðnir um að kanna hvort þeir teldu efnið vera ritstjórnarefni eða auglýsingu og merkja við þann svarmöguleika sem þeim þætti lýsa efninu best. Þrír af hverjum fjórum (75,7%) sögðu dæmi sem sýndi kostaða umfjöllun vera auglýsingu, 19,1% sögðu efnið ritstjórnarefni og 5,2% voru óviss. Töluverður munur var á milli aldurshópa þar sem hlutfall þeirra sem töldu að um ritstjórnarefni væri að ræða jókst eftir því sem aldur þátttakenda lækkaði.

Yngsti aldurshópurinn líklegri til að segja www.xd.is vera ritstýrðan fréttamiðill en vef á vegum stjórnmálaflokks

Þátttakendur fengu þá sex raunveruleg dæmi um niðurstöður við Google leitinni „Bóluefni við COVID-19“ til þess að kanna færni þeirra í meta uppruna hlekkja sem birtast við slíka leit. Alls lásu 76,4% þátttakenda rétt út úr Google leitarniðurstöðunni „Samvinna í baráttunni gegn Covid-19 er hagur okkar allra…“ ásamt meðfylgjandi slóð „https://xd.is“ og sögðu hana vera hlekk inn á vef á vegum stjórnmálaflokks. Í yngsta aldurshópnnum (15-17 ára) voru fleiri sem töldu hlekkinn leiða inn á ritstýrðan fréttamiðil (34,4%) en vef á vegum stjórnmálaflokks (28,7%). En fleiri dæmi má finna í skýrslu Fjölmiðlanefndar sem má finna hér.