Misbýður tilhugsunin að hægt sé að kaupa fréttir á ritstýrðum fréttamiðlum

„Okkar eina markmið er að þjóna lesandanum og segja honum eitthvað nýtt á hverjum degi. Við missum allan trúverðugleika ef að spyrst út eða lítur út fyrir að það sé hægt að kaupa hjá okkur frétt. Sú hugmynd að það gæti verið hægt einfaldlega misbýður mér,“ segir Ari Brynjólfsson fréttastjóri hjá Fréttablaðinu í viðtali hjá Skúla B. Geirdal í nýjasta hlaðvarpsþætti Fjölmiðlanefndar. Til umræðu var m.a. ný skýrsla um miðlalæsi á Íslandi sem snýr að ritstjórnarefni og auglýsingum sem má nálgast hér.

„Verkfallsblaðið okkar sem kom út í desember 2019 er reyndar ágætt dæmi um hvað það er sem ritstjórnin gerir. Þá fóru blaðamenn í verkfall og við gáfum út tómt blað. Þáverandi ritstjóri, Jón Þórisson, skrifaði sjálfur frétt um verkfallið þar sem að hann var ekki í verkfalli. Síðan var teiknuð mynd framan á þar sem Halldór Baldursson teiknari er ekki á ritstjórninni. Síðan var bara tómt blað fyrir utan kynningarkaflann þar sem hann telst ekki til ritstjórnarefnis,“ segir Ari Brynjólfsson aðspurður um hlutverk ritstjórnar hjá ritstýrðum fréttamiðli.

Að fá borgað eða borga fyrir fréttir

Ari rifjar upp sögu af því þegar að hann vann hjá DV í tengslum við umræðu um eldvegginn á milli ritstjórnarefnis og kynningarefnis sem auglýsingadeildin selur. „Það tíðkaðist hjá DV fyrir mörgum árum síðan að þar var kubbur framan á blaðinu, fréttaskot, þar sem þú gast hringt í eitthvað númer og ef þú náðir á forsíðuna þá gastu fengið 100 þúsund krónur eða hvað það nú var. Þetta var náttúrlega svífandi há upphæð í þá daga. Það var stundum fólk sem hringdi þegar að ég var að vinna á DV fyrir nokkrum árum sem spurði hvort það gæti fengið 100 þúsund kallinn í skiptum fyrir fréttaskot eða kannski 10 þúsund eða bara eitthvað. Þetta fyrirkomulag var löngu hætt fyrir mína tíð og örugglega fyrir aldamót. En síðan snérist þetta við og ég fékk um daginn yndislegt símtal með ágætri fréttaábendingu en síðan í kjölfarið var ég spurður að því hvað þetta kostaði. Þá stóð viðkomandi í þeirri trú að það þyrfti að borga til þess að koma fréttinni að í blaðinu. Svarið var einfalt nei þar sem svoleiðis virkar þetta einfaldlega ekki.“

Þú verður að hafa tvær heimildir á bak við þig

Slúðursögur eru ekki nýtt fyrirbæri en með tilkomu samfélagsmiðla hefur dreifing þeirra og umræða um þær breyst nokkuð. Fjölmiðlar hafa þá fengið á sig gagnrýni fyrir að vera lengi að skrifa fréttir um sögur sem hafa farið í dreifingu á samfélagsmiðlum. „Þú verður alltaf að hafa tvær heimildir á bak við þig og helst gögn með, þá getur þú birt frétt,“ segir Ari um ferlið sem fer af stað þegar að slúðursaga kemur inn á borð blaðamanns. „Ég vildi að ég gæti nefnt einhver dæmi um slúðursögu sem ég er með en get ekki birt frétt um. En ég ætla að sleppa því og sleppa því þar með að vera dreginn fyrir dóm. Við heyrum sögu og þá er það fyrsta sem við gerum að heyra í viðkomandi,“ segir Ari.

„Þú verður alltaf að hafa tvær heimildir á bak við þig og helst gögn með þá getur þú birt frétt“

Á margar sögur sem ekki hefur verið hægt að birta

„Ef sagan er nafnlaus þá er eiginlega voðalega lítið sem við getum gert annað en að hafa samband við fólkið sem er þá að deila sögunni áfram. Hvar heyrðir þú þetta, hvaðan kemur þetta, frá hvaða vini þínum heyrðir þú þetta og má ég fá að heyra í viðkomandi? Við reynum alltaf að hafa uppi á viðkomandi. Síðan þegar að það tekst þá getur alltaf verið að sagan taki einhverjum breytingum. Þetta var kannski ekki jafn alvarlegt eða jafnvel alvarlegra en sagan sagði til um. Kannski gerðist eitthvað meira. Þá leitum við einhvers konar staðfestingar á að viðkomandi hafi farið með málið rétta leið. Er búið að leita til lögreglu, lögmanns og réttargæslumanns og þá viljum við helst fá að tala líka við réttargæslumanninn,“ segir Ari sem sjálfur segist því miður eiga sögur sem hann hafi ekki getað birt sökum þess að ekki reyndist mögulegt að fá nægjanlegar heimildir fyrir þeim.

Mikið sem á sér stað áður en frétt fer í birtingu

„Ég get því miður ekki farið mjög náið út í þessa bakgrunnsvinnu þar sem að þetta geta verið mjög viðkvæm mál. Við erum að tala við fólk sem er í mjög erfiðri stöðu oft og tíðum. Með áhyggjur af lögfræðingum, framtíðar- atvinnumöguleikum sínum og þar fram eftir götunum þegar að það stígur fram með erfið mál. En ég held að ég geti nú fullyrt það að þegar að mál eru birt af hálfu fjölmiðils  er nú ansi mikið sem hefur átt sér stað á undan,“ segir Ari.

Allt viðtalið við Ara má nálgast á helstu hlaðvarpsveitum sem og í spilaranum hér fyrir neðan: 

Þáttunum sem unnir eru af Fjölmiðlanefnd er ætlað að efla umræðu um miðlalæsi á Íslandi og kafa nánar í rannsóknir og skýrslur á því sviði sem nefndin gefur út. Þá verða málefni fjölmiðla og fjölmiðlunar rædd út frá ýmsum sjónarhornum með viðtölum við fjölmiðlafólk, sérfræðinga og rannsakendur á sviði fjölmiðlunar.