Íslenska á undir högg að sækja í tölvuleikjum og við áhorf á afþreyingarefni

Íslenskt tungumál á undir högg að sækja í áhorfi bíómynda, sjónvarpsþátta, inná YouTube og í spilun tölvuleikja meðal barna og ungmenna á framhalds- og grunnskólaaldri þar sem mun fleiri segjast frekar nota ensku. Flestir segjast þó velja íslensku við lestur, áhorf og hlustun á fréttir. Inná samfélagsmiðlum er hlutfallið nokkuð jafnt milli íslensku og ensku. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar Menntavísindastofnunar fyrir Fjölmiðlanefnd sem náði til barna og ungmenna á aldrinum 9-18 ára.

Velja ensku oftar en annað tungumál í bíómyndum og þáttum

Þrír af hverjum fjórum á framhaldsskólaaldri segjast nota ensku oftar en annað tungumál við áhorf á bíómyndir og sjónvarpsþætti og helmingur barna í 4-10. bekk grunnskóla. Þá voru 11% framhaldsskólanema sem segjast nota íslensku og ensku álíka mikið, 7,8% nota íslensku oftar en annað tungumál og 3,5% nota aðra blöndu en íslensku og ensku. Íslenskunotkunin var mest meðal þeirra yngstu í könnuninni þar sem 26,1% barna í 4.-7. bekk nota helst íslensku við áhorf á bíómyndir og þætti og 12,1% barna í 8.-10. bekk.

Helmingur notar ensku við tölvuleikjaspilun

Helmingur barna í 4.-10. bekk notar ensku umfram önnur tungumál við tölvuleikjaspilun, 19,3% segist nota íslensku oftar en önnur tungumál og 10,3% notar íslensku og ensku álíka mikið. Á framhaldsskólaaldri voru 44,8% sem nota ensku mest við tölvuleikjaspilun, 17% sem nota íslensku mest og 12,8% sem nota íslensku og ensku álíka mikið. Tölvuleikjaspilun var algengust meðal stráka og þeirra sem eru á grunnskólaaldri. Einn af hverjum fimm á framhaldsskólaaldri segist aldrei spila tölvuleiki, þar sem 36,1% stúlkna segjast aldrei spila og 7,3% stráka. Í grunnskóla er einn af hverjum tíu sem segist aldrei spila tölvuleiki þar sem 20,2% stúlkna segist aldrei spila, 2% stráka og 12,5% sem skilgreinir kyn sitt sem annað.

Flestir nota íslensku til að nálgast fréttir

Helmingur framhaldsskólanema notar íslensku oftar en önnur tungumál við lestur, áhorf eða hlustun á fréttir og 61,4% í 4.-10. bekk grunnskóla. Einn af hverjum fimm segist nota ensku mest til að nálgast fréttir á framhaldsskólaaldri og fjórðungur segist nota íslensku og ensku álíka mikið. Í 4.-10. bekk grunnskóla eru 12,3% sem segjast nota ensku mest til að nálgast fréttir og 8% sem nota íslensku og ensku álíka mikið. Stelpur og strákar eru jafn líkleg til þess að nota íslensku umfram annað tungumál í þessum tilgangi en þau sem skilgreina kyn sitt sem annað eru mun líklegri til þess að nota ensku til að nálgast fréttir. Þá eru 8,1% barna í 4.-10. bekk grunnskóla og 2,2% á framhaldsskólaaldri sem segjast aldrei lesa, horfa eða hlusta á fréttir.

Álíka margir sem nota íslensku og ensku á samfélagsmiðlum

Álíka margir nota ensku og íslensku sem sitt aðal tungumál á samfélagsmiðlum. Á framhaldsskólaaldri eru 37,7% sem nota íslensku umfram önnur tungumál, 31,2% sem nota ensku og 26,6% sem nota íslensku og ensku álíka mikið. Stelpur (42%) eru þá líklegri en strákar (33,4%) á framhaldsskólaaldri til þess að nota íslensku á samfélagsmiðlum. Í 4.-10. bekk grunnskóla eru 35,5% sem nota íslensku sem sitt aðal tungumál á samfélagsmiðlum, 33,5% nota ensku og 16,8% nota íslensku og ensku álíka mikið. Stelpur og strákar eru jafn líkleg til þess að nota íslensku umfram annað tungumál inná samfélagsmiðlum en strákar eru heldur líklegri til þess að nota ensku sem sitt aðal mál. Þau sem skilgreina kyn sitt sem annað eru hinsvegar mun líklegri til þess að nota ensku sem sitt aðal tungumál á samfélagsmiðlum.

Enska ráðandi á YouTube

Langmesti munurinn á milli íslensku- og enskunotkunar þátttakenda kom fram þegar spurt var um YouTube áhorf. Skýrist það líklega af skorti á framboði af íslensku efni á miðlinum. Níu af hverjum tíu á framhaldsskólaaldri nota ensku umfram annað tungumál á YouTube, 2,8% nota íslensku oftast, 3,4% nota íslensku og ensku álíka mikið og 2,2% nota aðra blöndu af tungumálum. Í 4.-10. bekk grunnskóla eru 76,3% sem nota ensku mestmegnis á YouTube, 6,7% nota íslensku oftast, 5,6% nota íslensku og ensku álíka mikið og 1,8% nota aðra blöndu af tungumálum.