Þriðjungur telur sig eyða miklum tíma í tölvuleikjaspilun

Þriðjungur grunn- og framhaldsskólanema, sem spila tölvuleiki, telja sig eyða miklum tíma í spilun þeirra. Langflestir strákar á öllum skólastigum spila tölvuleiki þó þeim fækki aðeins með aldri. Meðal stelpna eru hlutfallslega flestar sem spila tölvuleiki í 4.-7. bekk en á unglinga- og framhaldsskólastigi er rúmur helmingur sem spilar.  Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Fjölmiðlanefndar og Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands um börn og netmiðla sem fjallar um tölvuleiki.

Skýrslan er fimmti hluti af sjö og byggir á niðurstöðum könnunarinnar „Börn og netmiðlar“ sem Menntavísindastofnun framkvæmdi fyrir Fjölmiðlanefnd í 23 grunnskólum og 23 framhaldsskólum meðal grunn- og framhaldsskólanema á aldrinum 9-18 ára . Er þetta í fyrsta sinn sem Fjölmiðlanefnd, í samstarfi við Menntavísindastofnun, birtir niðurstöður slíkrar umfangsmikillar könnunar. Fyrirhugað er að að gera sambærilega könnun á tveggja til þriggja ára fresti til að kanna miðlanotkun og færni barna og ungmenna þannig að hægt verði að bera saman niðurstöðurnar og hvernig notkun þróast.

Níu af hverjum tíu spila tölvuleiki á miðstigi grunnskóla

Með hækkandi aldri dregur úr spilun tölvuleikja. Í 4.-7. bekk spila níu af hverjum tíu tölvuleiki en í framhaldsskóla er hlutfallið rúmlega sjö af hverjum tíu. Langflestir strákar á öllum skólastigum spila tölvuleiki þó þeim fækki aðeins með aldri. Meðal stelpna eru hlutfallslega flestar sem spila tölvuleiki í 4.-7. bekk en á unglinga- og framhaldsskólastigi er rúmur helmingur sem spilar.

Strákar líklegri til að telja tölvuleiki bæta enskukunnáttu sína

Á bilinu sjö til átta af hverjum tíu strákum telja að tölvuleikir bæti enskukunnáttu þeirra. Heldur færri stelpur telja að tölvuleikir bæti kunnáttu þeirra í ensku. Hlutföllin haldast nokkuð stöðug yfir öll skólastigin. Þá eru um sex af hverjum tíu þátttakendum á unglingastigi og í framhaldsskóla sem telja spilun tölvuleikja vera félagslegt atferli. Hlutfallið er lægst meðal nemenda í 4.-7 bekk þar sem um fjórir af tíu eru sammála fullyrðingunni (42%).

Þriðjungur telur sig eyða miklu tíma í tölvuleikjaspilun

Þriðjungur grunn- og framhaldsskólanema, sem spila tölvuleiki, telja sig eyða miklum tíma í spilun þeirra. Í grunnskóla eru 26% ósammála fullyrðingunni og 40% framhaldsskólanema. Lítill munur er á hlutföllum eftir skólastigum. Af þeim sem spila tölvuleiki eru fjórir til fimm af hverjum tíu strákum sem segjast eyða miklum tíma í tölvuleikjaspilun. Hlutfall stelpna sem telur sig eyða miklum tíma í tölvuleikjaspilun er mun lægra eða á bilinu 12-17%. Hér spilar inní að mun færri stelpur en strákar spila tölvuleiki.

Rúmlega tvöfalt fleiri strákar en stelpur hafa spilað tölvuleiki með 18 ára aldurstakmarki

Rúmlega tvöfalt fleiri strákar en stelpur á öllum skólastigum hafa spilað tölvuleiki með 18 ára aldurstakmarki. Um fjórðungur stelpna vissi ekki hvort þær hefðu spilað tölvuleik sem var bannaður innan 18 ára, sem er mun hærra hlutfall en meðal stráka. Í 4.-7. bekk hefur tæpur þriðjungur nemenda spilað leiki með 18 ára aldurstakmarki. Í 8.-10. bekk hækkar hlutfallið í 60% sem hefur spilað slíka leiki og 65% í framhaldsskóla. Það skal haft í huga að þessi rannsókn var gerð meðal 9-18 ára barna og ungmenna og því höfðu langflestir þátttakendur ekki náð 18 ára aldri þegar að könnunin var gerð.

Einn af hverjum fimm keypti hluti í tölvuleik án þess að vita hvað fengist í staðinn

Einn af hverjum tíu tölvuleikjaspilurum telur sig eyða miklum peningum í spilamennskuna. Sex af hverjum tíu eru ósammála því að þeir eyði miklum peningum í tölvuleiki. Lítill munur er á hlutföllum eftir skólastigum. Fjórðungur nemenda í 8.-10. bekk grunnskóla og framhaldsskóla vissi fyrirfram hvaða hluti þeir væru að kaupa í tölvuleikjum, en 20% hafði eytt peningum án þess að vita fyrirfram hvaða hlutir myndu fást í staðinn. Töluvert hærra hlutfall stelpna (48%) en stráka (20%) segist aldrei hafa keypt neitt fyrir alvöru peninga í leikjum. Sjö af tíu grunnskólabörnum spyrja foreldra sína um leyfi áður eitthvað er keypt í tölvuleik. Hlutfall þeirra sem ekki spyrja um leyfi hækkar með aldri og í framhaldsskóla eru þrír af hverjum tíu nemendum sem spyrja foreldra sína um leyfi áður en hlutir eru keyptir í tölvuleikjum.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á myndina af forsíðunni hér fyrir neðan