Ný hvítbók um framtíð stuðnings við einkarekna fjölmiðla í Svíþjóð

Þann 27. júní var gefin út hvítbókin Sjálfbær stuðningur til fjölmiðla um allt land, þar sem finna má tillögur að nýju fyrirkomulagi um stuðning við sænska fjölmiðla sem áætlað er að taki gildi þann 1. janúar 2024. Í hvítbókinni er lagt til að það fyrirkomulag stuðnings við einkarekna miðla, sem hefur verið við lýði í Svíþjóð síðan upp úr 1970, verði aflagt og að komið verði á nýju stuðningskerfi sem taki mið af þeim miklu breytingum sem hafa orðið á fjölmiðlamarkaði. Markmiðið með hinu nýja kerfi er að starfsemi bæði svæðisbundinna og landsdekkandi fjölmiðla um allt land verði tryggð, enda séu þeir hornsteinn lýðræðis. Þannig verði sjónum áfram sérstaklega beint að svæðum þar sem engir fjölmiðlar starfa. Markmiðið er jafnframt að stuðningur verði veittur óháð miðlunarformi fjölmiðla og að óheimilt verði að veita almennum fréttamiðlum stuðning gangi ritstjórnarstefna þeirra í berhögg við grundvöll hins lýðræðislega stjórnkerfis.

Viðamiklar tæknibreytingar á fjölmiðlamarkaðnum hafa kallað á endurskoðun laga um fjárhagslegan stuðning til einkarekinna fjölmiðla. Í október 2021 var ákveðið að vinna tillögur að nýju stuðningskerfi fyrir fjölmiðla í Svíþjóð. Markmiðið er að bæta og uppfæra núverandi fyrirkomulag til að það þjóni betur nútíma fréttamiðlun. Við endurskoðun stuðningskerfisins var samráð haft við við helstu hagaðila og fulltrúa stjórnmálaflokka á sænska þinginu. Tillögurnar hafa nú verið lagðar fram til almenns samráðs sem lýkur 30. september nk.

Mikilvægt að efla ritstjórnir fjölmiðla

Helstu nýmæli í hvítbókinni eru að sett verður upp nýtt stuðningskerfi sem byggir á endurgreiðslu ritstjórnarkostnaðar fjölmiðla. Bent er á að vönduð blaða- og fréttamennska sé kostnaðarsöm og að til að unnt sé að halda henni úti verði að efla ritstjórnir fjölmiðla. Lögð er áhersla á að nýtt stuðningskerfi feli í sér hvata til að ráða fleiri blaða- og fréttamenn á fréttamiðla og styrkja þannig ritstjórnir þeirra. Með því að líta til ritstjórnarlegs kostnaðar er jafnframt reynt að tryggja að stuðningurinn verði nýttur til að vinna vandað ritstjórnarefni en ekki til að viðhalda gömlum viðskiptamódelum fjölmiðla. Þannig er reynt að gæta að því að fjölmiðlar geti þróast og breyst og að nýtt stuðningskerfi styrki gerð vandaðs ritstjórnarefnis.

Markmiðið með hinu nýja stuðningsfyrirkomulagi er fyrst og fremst að styrkja starfsemi fréttamiðla, bæði svæðisbundið og um allt land, til að tryggja aðhald með valdhöfum og lýðræðislega umræðu á öllum landssvæðum. Ekki verður lögð jafn mikil áhersla á fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlun og í eldri stuðningskerfum þar sem sýnt hefur verið fram á að ekki sé hægt að tryggja fjölbreytni og fjölræði á mörgum svæðum landsins. Því verður megináhersla lögð á að tryggja að það sé fagleg fjölmiðlun á öllum landssvæðum í afar breyttu fjölmiðlalandslagi.

Almenn skírskotun og grundvallarþýðing fyrir lýðræðið

Samkvæmt tillögunum geta almennir fréttamiðlar sótt um rekstrarstuðning, óháð þeirri tækni sem notuð er til að miðla fréttum. Samkvæmt skilgreiningu á hugtakinu fréttamiðill er átt við ritstýrða miðla sem ástunda rannsóknarblaðamennsku og miðla fréttum með reglubundnum hætti, hafa almenna skírskotun og grundvallarþýðingu fyrir lýðræðið. Til skýringar er þess getið að almennir fréttamiðlar hafi breiðari skírskotun en miðlar sem fjalla um sértæk svið samfélagsins, svo sem verslun og viðskipti, neytendamál, umhverfismál, íþróttir, útivist eða miðlar sem fjalla um trúmál. Ekki er gert ráð fyrir að miðlar sem fjalla um sértæk svið samfélagsins hljóti stuðning, heldur þurfi fjölmiðlar að hafa breiða skírskotun og fjalla um samfélagsleg málefni á breiðum grunni til að eiga rétt á stuðningi.

Breytingar á skilyrðum

Í núverandi löggjöf í Svíþjóð er gert ráð fyrir því að ritstjórnarefnið skuli hið minnsta vera helmingur alls efnis sem birtist á miðlinum og að útgáfutíðnin sé að lágmarki 45 sinnum á ári. Þannig fá dagblöð ekki styrki ef auglýsingar og kostaðar umfjallanir eru meira en helmingur efnis blaðanna og þurfa miðlarnir auk þess að uppfylla skilyrði um ákveðna útgáfutíðni. Vefmiðlar eru hins vegar allt annars eðlis, þar sem efni þeirra verður ekki mælt í fjölda dálksentímetra. Því er gerð sú krafa í nýju tillögunum að ritstjórnarefnið sé mikilvægasti hluti miðilsins án þess að sett séu töluleg viðmið. Þá eru einnig gerðar þær kröfur að mikilvægur hluti efnisins sé eigið ritstjórnarefni, en það felur í sér kröfu um eigin fréttamiðlun og úttektir á mikilvægum málum. Skilyrði um útgáfutíðni er einnig fellt út og í stað þess gerð krafa um reglubundna miðlun.  

Nýjar lýðræðisreglur

Róttækustu tillögurnar eru án efa hinar svokölluðu lýðræðisreglur en það eru tillögur þess efnis að einungis verði heimilt að veita stuðning til almennra fréttamiðla sem miðla efni  í samræmi við undirstöðureglur lýðræðislegra stjórnarhátta, um að allir séu jafnir fyrir lögum og njóti mannréttinda og að borin sé virðing fyrir frelsi einstaklingsins, persónuvernd og mannlegri reisn. Þannig verði fallið frá ákvæðum í núverandi löggjöf sem kveða á um að eingöngu almennir fréttamiðlar sem fylgja siðareglum blaðamanna geti hlotið stuðning. Þessi nýja tillaga tekur mið af stjórnarskrá og löggjöf um tjáningarfrelsi í Svíþjóð. Fram kemur í hvítbókinni að tjáningarfrelsið leggi ríkinu ekki þær skyldur á herðar að verja skattfé til stuðnings við fréttamiðla sem hafi það beinlínis að markmiði að grafa undan mannréttindum og lýðræði, enda sé markmið stjórnvalda að tryggja jafnrétti og virðingu fyrir öllum borgurum. Þó að allir hafi rétt til tjáningar þá er það ekki talið samræmast stjórnarskrá, löggjöf og þeim grunngildum sem sænsk stjórnsýsla byggi á að veita ríkisstyrki til fjölmiðla  sem hafi það að markmiði að grafa undan lýðræði og mannréttindum.

Í núverandi löggjöf um stuðning til einkarekinna fjölmiðla er sú skylda lögð á umsækjendur að þeir skuldbindi sig til að uppfylla og fara eftir siðareglum blaða- og fréttamanna. Í því felst að fjölmiðlar sem hunsa grundvallargildi faglegrar blaða- og fréttamennsku fá ekki styrk. Einnig að miðlar sem gerast sekir um refsiverða háttsemi, s.s. haturstal fái ekki stuðning. Í tillögunum kemur fram að ekki sé talið ákjósanlegt að bein tenging sé á milli sjálfstæðra siðareglna og siðanefndar blaðamanna og stuðningskerfis stjórnvalda til einkarekinna miðla. Þá er talið auðsætt að ríkið geti ekki stutt við fjölmiðla sem kerfisbundið hunsi siðareglur og vinni ekki samkvæmt grunngildum faglegrar blaða- og fréttamennsku. Því geti stuðningur ríkisins ekki verið tengdur því hvort fjölmiðlar hafi brotið gegn siðareglum blaðamanna í einstaka tilvikum.

Viðsjárverð þróun fjölmiðlunar

Í hvítbókinni segir að þróun fjölmiðlunar á heimsvísu sýni að víða sé staðan orðin sú að fjölmiðlar geti ekki lengur talist hornsteinn lýðræðis heldur séu sumir þeirra farnir að grafa undan og ógna lýðræðinu. Ekki sé hægt að útiloka að sú þróun sem nú þegar hafi átt sér stað í ríkjum með langa og rótgróna lýðræðishefð muni ekki einnig eiga sér stað í Svíþjóð. Því standi rök til þess að í nýju stuðningsfyrirkomulagi verði gerðar kröfur til framtíðar um að fjölmiðlar sem hljóti stuðning fylgi lýðræðishefðum.

Áætlað er að ritstjórnarstuðningi samkvæmt nýju fyrirkomulagi verði komið á með nýrri löggjöf og að lögin taki gildi þann 1. janúar 2024.

Höf: Elfa Ýr Gylfadóttir
elfa@fjolmidlanefnd.is