Ný skýrsla um áhorf á klám meðal barna og ungmenna á aldrinum 9-18 ára

Þrír af hverjum fjórum strákum í framhaldsskóla hafa horft á klám. Hlutfall stelpna er nokkru lægra eða 41%. Á unglingastigi hefur einn af hverjum þremur strákum horft á klám og ein af hverjum tíu stelpum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um klámáhorf grunn- og framhaldsskólanema á aldrinum 9-18 ára. Lægra hlutfall bæði stráka og stelpa á unglingastigi og á framhaldsskólaaldri segjast hafa horft á klám nú en 2021.

Skýrslan er fjórði hluti af sex og byggir á niðurstöðum könnunarinnar „Börn og netmiðlar“ sem Menntavísindastofnun framkvæmdi fyrir Fjölmiðlanefnd í 53 grunnskólum og 25 framhaldsskólum. Er þetta í annað sinn sem Fjölmiðlanefnd, í samstarfi við Menntavísindastofnun, birtir niðurstöður slíkrar umfangsmikillar könnunar. Fyrirhugað er að að gera sambærilega könnun á tveggja til þriggja ára fresti til að kanna miðlanotkun og færni barna og ungmenna þannig að hægt verði að bera saman niðurstöðurnar og hvernig notkun þróast.

Rúmlega þrefalt fleiri strákar en stelpur á unglingastigi horfðu á klám á netinu

Þátttakendur í 7.-10. bekk grunnskóla og nemendur 18 ára og yngri í framhaldsskóla fengu nokkrar spurningar um klámáhorf á netinu, þ.e. hvort þeir hafi horft á klám, hvernig þeir upplifðu það og hvort og hvar þeir sæju klámauglýsingar á netinu. Í 7. bekk hafði 5% nemenda horft á klám en í 8.-10. bekk hafði hlutfallið hækkað í 23%. Í framhaldsskóla var hlutfallið rúmlega tvöfalt hærra en á unglingastigi eða 52%. Rúmlega þrefalt fleiri strákar en stelpur á unglingastigi höfðu horft á klám. Í framhaldsskóla eru strákar tæplega tvöfalt líklegri en stelpur til að hafa horft á klám. Athyglisvert er að nokkuð hátt hlutfall stráka í 8.-10. bekk veit ekki hvort þeir hafi horft á klám. Í 7. bekk var hærra hlutfall þátttakenda en á unglinga- eða framhaldsskólastigi sem hafði horft á klám vegna þess að vinur eða vinkona hafði sýnt þeim klámið. Rúmlega helmingur stráka (56%) í 8.-10. bekk höfðu leitað að kláminu sjálfir en meðal stelpna er hlutfallið 43%. Í framhaldsskóla var hlutfallið mun hærra meðal þeirra sem höfðu leitað sjálfir að kláminu, strákar 74% og stelpur 61%. Örfáir í þessum aldurshópum sögðu að vinir eða vinkonur hefðu sýnt þeim klámið. Í 8.-10. bekk voru rúmlega tveir af hverjum tíu svarendum sem mundu ekki af hverju þeir horfðu á klámið.

Flestir á báðum skólastigum höfðu séð klámauglýsingar á ólöglegum streymissíðum

Þeir þátttakendur sem sögðust hafa horft á klám voru spurðir hvernig þeir upplifðu það. Nokkuð fleiri strákum en stelpum á báðum skólastigum líkaði það eða fannst spennandi að skoða klám. Í framhaldsskóla voru strákar um 19% fleiri en stelpur sem líkaði klám eða þótti spennandi að skoða það. Stelpur voru nokkuð fleiri á báðum skólastigum sem var sama þótt þær hefðu horft á klám. Allir þátttakendur á unglinga- og framhaldsskólastigi voru spurðir hvort þeir hefðu séð auglýsingu um klám á netinu. Nokkuð fleiri strákar en stelpur höfðu séð slíkar auglýsingar. Flestir á báðum skólastigum höfðu séð klámauglýsingar á ólöglegum streymissíðum. Þeir sem höfðu horft á klám voru svo spurðir hvar á netinu þeir höfðu gert það. Um fjórir af hverjum tíu sem höfðu horft á klám í 8.-10. bekk höfðu horft á það á sérstökum klámsíðum, en á framhaldsskólastigi var hlutfallið um sjö af hverjum tíu. Rúmur þriðjungur þáttakenda á unglingastigi vissi ekki eða vildi ekki gefa upp hvar þeir höfðu horft á klám. Tæpur þriðjungur stráka á framhaldsskólastigi segist hafa horft á klámið á leitarvélum.

Fleiri í yngri hópnum sem upplifa félagslegan þrýsting frá vinum til að horfa á klám

Þeir þátttakendur sem sögðust hafa horft á klám á netinu voru einnig spurðir hversu oft þeir gerðu það. Varasamt er að túlka hlutfallslegan mun milli aldurshópanna þar sem þeir sem horft höfðu á klám eru mjög fáir í 8.-10. bekk, sérstaklega stelpur. Engu að síðu horfðu strákar á báðum skólastigum oftar á klám en stelpur. Þá var spurt út í viðhorf ungmenna til klámáhorfs. Með hækkandi aldri eykst hlutfall þeirra sem eru sammála því að áhorf á klám hafi áhrif á framkomu fólks hvert við annað. Hlutfallslega fleiri ungmenni í yngri hópnum telja félagslegan þrýsting frá vinum leiða til áhorfs á klám.