Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Sýn hf. hafi brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 um bann við viðskiptaboðum fyrir nikótínvörur með miðlun viðskiptaboða fyrir vefsíðuna Loopmerch.is á FM957.
Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli nafnlausra ábendinga sem upphaflega bárust Neytendastofu en voru áframsendar til Fjölmiðlanefndar. Í ábendingunum kom fram að í þáttunum FM95BLÖ hefðu birst auglýsingar fyrir vefsíðuna Loopmerch.is, sem er í eigu Duflands ehf., undir því yfirskini að um væri að ræða auglýsingar fyrir fatnað, en þar væri í raun um að ræða auglýsingar fyrir nikótínvörur frá vörumerkinu LOOP.
Í ákvörðun Fjölmiðlanefndar kemur fram að viðskiptaboðin teljist til viðskiptaboða fyrir nikótínvörur og að með miðlun þeirra á FM957 hafi Sýn hf., sem fjölmiðlaveita vefmiðilsins, brotið gegn þeim hluta 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla sem bannar slík viðskiptaboð.
Fjölmiðlanefnd taldi ekki ástæðu til að falla frá sektarákvörðun í málinu. Við þá ákvörðun var tekið mið af því að Sýn hf. hafi ítrekað brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla um bann við viðskiptaboðum fyrir áfengi. Taldi Fjölmiðlanefnd hæfilegt að sektin næmi 1.500.000 kr.
Ákvörðun Fjölmiðlanefndar nr. 3/2024