Fjórðungur nemenda í 4.-10. bekk sem spilar tölvuleiki segjast eyða miklum tíma í spilun þeirra, í framhaldsskóla er hlutfallið 15%. Í 4.-7. bekk spilar 97% stráka og 84% stelpna tölvuleiki. Með hækkandi aldri fækkar þeim sem spilar þá. Rúmur helmingur stelpna í framhaldsskóla spilar tölvuleiki en níu af hverjum tíu strákum.
Í hópi þeirra sem spila tölvuleiki segjast 36% svarenda í 4. – 10. bekk og 57% í framhaldsskóla hafa spilað leiki með 18 ár aldurstakmörkum. Strákar er mun líklegri til þess en stelpur. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um tölvuleikjaspilun grunn- og framhaldsskólanema á aldrinum 9-18 ára.
Skýrslan er fimmti hluti af sex og byggir á niðurstöðum könnunarinnar „Börn og netmiðlar“ sem Menntavísindastofnun framkvæmdi fyrir Fjölmiðlanefnd í 53 grunnskólum og 25 framhaldsskólum. Er þetta í annað sinn sem Fjölmiðlanefnd, í samstarfi við Menntavísindastofnun, birtir niðurstöður slíkrar umfangsmikillar könnunar. Fyrirhugað er að að gera sambærilega könnun á tveggja til þriggja ára fresti til að kanna miðlanotkun og færni barna og ungmenna þannig að hægt verði að bera saman niðurstöðurnar og hvernig notkun þróast.
65% þátttakenda sammála því að tölvuleikjaspilun bæti enskukunnáttu þeirra
Þeir þátttakendur sem sögðust spila tölvuleiki fengu nokkrar fullyrðingar um tölvuleikjaspilun. Um 65% þátttakenda á unglinga- og framhaldsskólastigi eru sammála fullyrðingunni um að spilun tölvuleikja bæti enskukunnáttu þeirra. Í 4.-7. bekk er hlutfallið aðeins lægra eða 46%. Nemendur í 8.-10. bekk eru líklegastir til að finnast tölvuleikir auðvelda sér að eiga í samskiptum við vini sína (43%). Ekki er mikill munur eftir skólastigum en lægst er hlutfallið í framhaldsskóla (34%) en á meðal 4.-7. bekkinga var það 38%. Með hækkandi aldri eru hlutfallslega fleiri sem eru sammála því að tölvuleikir séu góðir til að upplifa sögur. Í yngsta aldurshópnum er hlutfallið 37% en komið yfir helming í framhaldsskóla (53%).
Segjast læra mikið af tölvuleikjaspilun
Rúmur þriðjungur þátttakenda er sammála því að þeir læri mikið af því að spila tölvuleiki. Ekki er mikill munur milli skólastiga. Rúmur fjórðungur þátttakenda er sammála því að hafa eignast nýja vini gegnum tölvuleiki. Óverulegur munur er milli aldurshópa. Með hækkandi aldri fækkar þeim sem eru sammála því að foreldrar þeirra telji þau spila of mikið tölvuleiki. Í yngsta hópnum eru 25% sammála fullyrðingunni en 11% í framhaldsskóla. Strákum og stelpum fjölgar með hækkandi aldri sem eru sammála því að tölvuleikir hjálpi þeim að læra ensku. Strákum fjölgar lítillega en stelpum fækkar sem eru sammála því að tölvuleikir auðveldi samskipti við vini. Þá fækkar strákum og stelpum með hækkandi aldri sem eru sammála því að foreldrar þeirra telji þau spila of mikið tölvuleiki.
Þriðjungur stráka sammála því að þeir eyði miklum tíma í tölvuleiki
Hlutfallslega fleiri strákar en stelpur eru sammála því að þeir eyði miklum tíma í tölvuleiki, þeir eyði miklum peningum í tölvuleiki, þeir fái oft leiðinleg komment þegar þeir spila tölvuleiki á netinu og að vinir þeirra skilji þá oft útundan í tölvuleikjum. Hlutfall stelpna í grunnskóla sem fann fyrir leiða vegna leiðinlegra kommenta í tölvuleikjum var örlítið hærra en hjá strákum, hlutfallið þar var þó á heildina litið lágt og fáir einstaklingar þar að baki. Strákum fjölgar með hækkandi aldri sem eyða miklum peningum í tölvuleikjum. Í framhaldsskóla eru 20% stráka sem spila tölvuleiki sem eyða miklum peningum í leikina. Þegar þátttakendur í 4.-7. bekk voru beðnir um að nefna þrjá helstu tölvuleiki sem þeir spila nefndu þeir 350 mismunandi leiki en þeir algengustu voru Minecraft, Fortnite, Roblox og FIFA/FC.
Fjórir af hverjum tíu strákum í 4.-7. bekk spilað tölvuleik með 18 ára aldurstakmarki
Allir þátttakendur voru svo spurðir hvort þeir hafi spilað tölvuleiki með 18 ára aldurstakmarki. Með hækkandi aldri fer hlutfall þeirra sem hafa gert það vaxandi. Tæplega 20% svarenda í öllum aldurshópum sagðist ekki vita hvort þeir hefðu spilað tölvuleik með 18 ára aldurstakmarki. Strákar eru mun líklegri en stelpur til að hafa spilað leiki með aldursviðmiði 18 ára og eldri. Í 4.-7. bekk hafa tæplega fjórir af hverjum tíu strákum spilað tölvuleiki með 18 ára aldurstakmarki. Í 8.-10. bekk er hlutfallið orðið sjö af hverjum tíu strákum sem hafa spilað leiki með 18 ára aldurstakmarki.
Strákar líklegri en stelpur til að hafa keypt eitthvað með alvöru peningum í tölvuleik
Þeir þátttakendur sem sögðust spila tölvuleiki voru spurðir hvort þeir hefðu keypt eitthvað með alvöru peningum í tölvuleik. Næstum helmingur stelpna sem spila tölvuleiki segist aldrei hafa keypt neitt með peningum í leikjunum. Hlutfallið er mun lægra hjá strákunum. Strákar eru því mun líklegri til að segjast hafa keypt hlut sem þeir vissu hver væri og að foreldrar þeirra hafi keypt eitthvað fyrir þá í tölvuleikjum. Þeir þátttakendur sem höfðu keypt eitthvað í tölvuleik voru svo spurðir hvort þeir hafi spurt foreldra sína um leyfi síðast þegar þeir keyptu eitthvað í tölvuleik. Langflestir strákar og stelpur í 6. og 7. bekk höfðu spurt foreldra sína um leyfi en þeim fækkar með hækkandi aldri. Í framhaldsskóla eru 43% sem höfðu spurt foreldra sína um leyfi. Á grunnskólastigi er aðeins líklegra að strákar hefðu spurt foreldra sína en stelpur. Munur milli stráka og stelpna eykst og snýst við í framhaldsskóla en þá eru 51% stelpna sem höfðu spurt um leyfi samanborið við 37% stráka.