Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Sólartún ehf. hafi brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 um bann við viðskiptaboðum fyrir nikótínvörur og áfengi með miðlun viðskiptaboða fyrir slíkar vörur á vef Mannlífs 27. júní 2023.
Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli ábendingar þar sem vakin var athygli á umfjöllun um áfengar vörutegundir á vef Mannlífs 27. júní 2023. Í umfjölluninni var rætt um söluvörur fyrirtækisins Duflands ehf., m.a. nikótínpúðategundirnar LOOP og VELO og víntegundirnar Marta Mate og The Chocolate Block. Við meðferð málsins komst Fjölmiðlanefnd að því að einnig ætti að leggja mat á hvort í umfjölluninni væri um að ræða brot á lögum um fjölmiðla vegna viðskiptaboða fyrir nikótínvörur.
Í ákvörðun Fjölmiðlanefndar kemur fram að umfjöllunin teljist til viðskiptaboða fyrir nikótínvörur og áfengi og að með miðlun þeirra á vef Mannlífs umrætt sinn hafi Sólartún ehf. brotið gegn þeim hluta 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla sem bannar slík viðskiptaboð.
Fjölmiðlanefnd ákvað að leggja stjórnvaldssekt á Sólartún ehf. Nefndin taldi hæfilegt að sektin næmi 250.000 kr. Við þá ákvörðun var tekið mið af eðli brotsins og ávinnings af því. Jafnframt var tekið mið af því að Sólartún ehf. hefði ekki áður brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla.