Ný skýrsla um upplifun barna og ungmenna af fréttum, falsfréttum og auglýsingum

Um helmingur nemenda í 6.-7. bekk fylgist með fréttum. Í framhaldsskóla er hlutfallið níu af hverjum tíu. Um fjórðungur allra nemenda sem fylgdust með fréttum forðuðust fréttir oftast eða stundum dagana sem könnunin fór fram. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um tækjaeign og virkni á samfélagsmiðlum meðal grunn- og framhaldsskólanema á aldrinum 9-18 ára.

Skýrslan er sú síðasta í röð af sex skýrslum og byggir á niðurstöðum könnunarinnar „Börn og netmiðlar“ sem Menntavísindastofnun framkvæmdi fyrir Fjölmiðlanefnd í 53 grunnskólum og 25 framhaldsskólum. Er þetta í annað sinn sem Fjölmiðlanefnd, í samstarfi við Menntavísindastofnun, birtir niðurstöður slíkrar umfangsmikillar könnunar. Fyrirhugað er að að gera sambærilega könnun á tveggja til þriggja ára fresti til að kanna miðlanotkun og færni barna og ungmenna þannig að hægt verði að bera saman niðurstöðurnar og hvernig notkun þróast.

Sex af hverjum tíu nemendum á unglingastigi nota TikTok til að fylgjast með fréttum

Helmingur barna í 4.-7. bekk segist skoða fréttir á netmiðlum oft eða stundum. Hlutfallið hækkar með aldri og á framhaldsskólastigi segjast 88% skoða fréttir oft eða stundum. Á grunnskólastigi eru strákar aðeins líklegri en stelpur til að skoða fréttir oft eða stundum. Algengasti miðillinn sem þátttakendur í 8.-10. bekk segjast nota til að fylgjast með fréttum er TikTok. Þar á eftir koma mbl.is, visir.is og ruv.is. Þegar niðurstöður eru skoðaðar eftir aldri sést að framhaldsskólanemar merkja flestir við mbl.is og visir.is. Nokkuð færri merkja við Facebook og Instagram. Þá er ruv.is í sjötta sæti hjá þeim aldurshópi. Þegar svör stráka og stelpna á öllum skólastigum eru borin saman sést að stelpur nota fleiri miðla en strákar til að skoða fréttir. Strákar eru þó líklegri en stelpur til að segjast nota Youtube og Twitter til að skoða fréttir.

Helmingur fylgist með fréttum því þeim finnst það það góð leið til að læra nýja hluti

Þeir þátttakendur sem sögðust fylgjast með fréttum oft eða stundum voru spurðir hvers vegna þeir fylgdust með fréttum. Hlutfallslega flestir segjast fylgjast með fréttum því sé góð leið til að læra nýja hluti. Fæstir segjast finnast það skylda sín að fylgjast með fréttum. Allir þátttakendur, óháð því hvort þeir sögðust fylgjast með fréttum eða ekki, voru svo spurðir út í það hvaða aðilar bentu þeim á áhugaverðar fréttir. Flestir þátttakendur segja að foreldrar þeirra bendi þeim oft eða stundum á áhugaverðar fréttir. Hlutfallið eykst lítillega með hækkandi aldri. Fleiri segja vini sína segja sér áhugaverðar fréttir samanborið við skólastarfsmenn, kennara eða systkini. Hlutfall þeirra sem segja systkini sín benda þeim á fréttir oft eða stundum eykst hins vegar ekki með aldri. Aðeins fleiri þátttakendur í framhaldsskóla en grunnskóla segja kennara oft eða stundum benda þeim á áhugaverðar fréttir. Mjög lítill munur er á svörum stráka og stelpna.

Fjórðungur forðaðist fréttir oft eða stundum dagana sem könnunin fór fram

Allir nemendur í 6.-10. bekk grunnskóla og í framhaldsskóla fengu spurningu um fréttaforðun, þ.e. hvort þeir hafi forðast fréttir þá daga sem könnunin fór fram. Tæpur fjórðungur þátttakenda segist hafa forðast fréttir oft eða stundum, fleiri þó stundum en oft. Hlutfallið lækkar aðeins með hækkandi aldri. Langflestir segjast þó hafa sjaldan eða aldrei forðast fréttir. Nánast enginn munur er á svörum stráka og stelpna, eða um 1%. Einnig eru svör nokkuð svipuð í öllum aldurshópum.

Flestir þeirra sem höfðu séð falsfrétt sögðust hafa séð hana á samfélagsmiðlum

Þátttakendur á unglingastigi og framhaldsskóla fengu nokkrar spurningar um falsfréttir, hvort og hvar þau teldu sig hafa séð þær. Einnig var spurt um viðbrögð þeirra við grunsemdum um að frétt gæti mögulega verið falsfrétt. Mun fleiri þátttakendur á framhaldsskólastigi (67%) en á unglingastigi (41%) telja sig hafa séð falsfrétt. Þegar skoðaðar eru niðurstöður fyrir stráka og stelpur er óverulegur munur á unglingastigi en í framhaldsskóla eru 12% fleiri strákar en stelpur sem telja sig hafa séð falsfrétt. Aðeins þeir sem töldu sig hafa séð falsfrétt voru spurðir hvernig þeir brugðust við henni. Flestir svarendur segjast ekki hafa gert neitt. Næst algengast er að þeir hafi leitað nánari upplýsinga um efnið á netinu, fleiri á framhaldsskólastigi en unglingastigi. Þeir sem hökuðu við að hafa skoðað miðil sem þeir treystu voru spurðir hvaða miðlar það væru. Þrír algengustu miðlarnir sem eru nefndir eru mbl.is, visir.is og ruv.is. Spurðir hvar þátttakendur hefðu séð frétt sem þeir töldu að gæti verið falsfrétt segja flestir á samfélagsmiðlum. Nokkuð hærra hlutfall þátttakenda á framhaldsskólastigi (71%) en unglingastigi (60%) merkja við samfélagsmiðla. Næst algengast er að hafa séð slíkar fréttir á vefsíðum en hlutfallið er mun lægra, þ.e. 25% á unglingastigi og 29% á framhaldsskólastigi.

Helmingi fleiri stelpur en strákar hafa séð umræður um leiðir til að grenna sig verulega

Þátttakendur á unglinga- og framhaldsskólastigi voru spurðir hvort þeir hefðu á undanförnu ári séð tilkynningar eða umfjallanir um nokkur efnisatriði, þ.á.m. myndbirtingar eða umræðu um beitingu ofbeldis, hatursorðræðu eða sölu áfengis og fíkniefna. Algengast er að þátttakendur hafi séð hatursskilaboð sem beindust að einstaklingum eða hópum. Hærra hlutfall stelpna (40%) en stráka (31%) í 8.-10. bekk segist hafa séð hatursskilaboð en rúmur helmingur þátttakenda í framhaldsskóla segist hafa séð þau. Næst algengast er að þátttakendur hafi séð umræður um hvernig grenna mætti sig verulega, en stelpur voru líklegri en strákar til að sjá slíka umræðu. Á báðum skólastigum eru strákar líklegri en stelpur til að hafa séð áætlanir um slagsmál.

11% stráka í 8.-10. bekk hafa notað Tor-browser til að vafra nafnlaust á netinu

Þátttakendur í 8.-10. bekk og í framhaldsskóla voru spurðir hvort þeir hafi heyrt um „Dark Web“ eða „myrka vefinn“, lítinn hluta djúpvefsins þar sem ólöglega starfsemi af ýmsu tagi er meðal annars að finna. Meðal þátttakenda á unglingastigi eru 74% sem segjast hafa heyrt um myrka vefinn og eru strákar þar nokkuð fleiri en stelpur. Á framhaldsskólastigi er hlutfallið hærra (81%). Í báðum aldurshópum er þekking stráka á vefnum algengari en stelpna. Þeir þátttakendur sem sögðust þekkja myrka vefinn voru spurðir hvort þeir hafi notað svokallaðan Tor-netvafra (e. The Onion Router) en hann gerir notendum mögulegt að vafra nafnlaust á netinu. Af þeim eru 11% stráka í 8.-10. bekk sem segjast hafa notað vafrann en hlutfallið er lægra meðal stelpna (2%). Í framhaldsskóla er hlutfall stráka hærra (16%) en óbreytt meðal stelpna. Spurt var hvers vegna þátttakendur hefðu notað Tor-vafrann. Algengasta ástæðan er til að opna svokallaðan Onion-hlekk. Í opna svarmöguleikanum „Annað“ eru algengustu ástæðurnar forvitni eða til að skoða, ná í leiki, myndir eða þætti og kaup á ólöglegum varningi.