Netumferðarskólinn fagnar árs afmæli!

Í dag 9. október er ár liðið síðan Netumferðarskólinn lagði fyrst af stað í  fræðsluherferð um landið. Á þessu eina ári hefur skólinn heimsótt 66 skóla í 36 bæjarfélögum um allt land og staðið fyrir 180 fræðsluerindum. Í heildina hafa 6320 börn í 4.-7. bekk um allt land, 1489 foreldra og 812 kennara tekið þátt í fræðslunni.

Verkefnið er hluti af aðgerðaráætlun stjórnvalda í netöryggi og styrkt af Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu. Fjölmiðlanefnd og Persónuvernd fengu það hlutverk að vinna fræðsluefni um upplýsinga-, miðla- og tæknilæsi ásamt því að auka þekkingu á persónuvernd í meðferð upplýsinga. Fræðsluerindið er blanda af fyrirlestri, hópverkefni og samtali við börnin þar sem áherslan er á vitundarvakningu, hugtakaskilning og valdeflingu.

Myndatexti: Steinunn Birna Magnúsdóttir og Skúli Bragi Geirdal hafa haldið utan um fræðsluerindin í Netumferðarskólanum

Í fræðslunni er fjallað um:

  • Netöryggi og samfélagsmiðla
  • Mynddeilingar og samþykki
  • Algóritma og samskipti á netinu
  • Persónuupplýsingar og stafrænt fótspor
  • Myndlæsi og gagnrýna hugsun

Nemendur fá þá tækifæri til þess að segja sína skoðun í lok fræðslunnar og þar hefur margt áhugavert komið í ljós. Langflest taka undir fullyrðingarnar:

  • Ég lærði eitthvað á þessum fyrirlestri
  • Ég myndi ekki vilja eyða meiri tíma í símanum
  • Það er mikilvægt að passa uppá persónuupplýsingar
  • Það er ekki allt satt og rétt á netinu
  • Það má ekki deila myndum af öðrum án samþykkis
  • Mér finnst að reglur um síma ættu líka að gilda um foreldra
  • Samfélagsmiðlar eru ekki fyrir börn undir 13 ára

Í dag er fræðslan án fjármagns en keyrð áfram undir merkjum SAFT og Fjölmiðlanefndar. Heimasíða verkefnisins var opnuð í dag: www.netumferdarskolinn.is

Þar er nú unnið að því að bæta við fræðsluefni og verkfærum fyrir kennara og foreldra.

Netumferðarskólinn þakkar öllum skólum, nemendum, kennurum og foreldrum fyrir frábærar viðtökur!