Norræn rannsókn um miðlalæsi sem framkvæmd er af Prósent

Könnunarfyrirtækið Prósent er nú að framkvæma rannsókn á miðlalæsi barna og ungmenna á aldrinum 9-15 ára hér á landi.

Rannsóknin er hluti samnorrænnar könnunar sem lögð er fyrir á öllum Norðurlöndunum á sama tíma. Það eru fjölmiðlanefndir á Norðurlöndunum sem sameiginlega standa að könnuninni og er hún fjármögnuð af Norrænu ráðherranefndinni.  Markmiðið er að fá samanburðarhæfar niðurstöður um færni og þekkingu barna og ungmenna á hinum ólíku miðlum og jafnframt að kanna notkun þeirra á fjölmiðlum, samfélagsmiðlum og leitarvélum.

Fjölmiðlanefnd hefur það lögbundna hlutverk að efla miðlalæsi meðal allra aldurshópa. Nefndin hefur því látið framkvæma tvær víðtækar kannanir á miðlanotkun barna og ungmenna undir heitinu Börn og netmiðlar. Einnig hefur nefndin látið framkvæma rannsókn á miðlalæsi meðal fullorðinna ásamt rannsóknum um upplýsingaóreiðu, traust og skautun í samfélaginu. Niðurstöður þessara rannsókna hafa verið gefnar út í ítarlegum skýrslum sem aðgengilegar eru á vef nefndarinnar. Niðurstöður rannsóknanna gefa vísbendingar um hvar áskoranirnar liggja og eru nýttar í fræðslustarf nefndarinnar. Þannig hefur nefndin staðið að fræðslustarfi sem tekur til um 12.000 barna á hinum ýmsu skólastigum á öllu landinu á árunum 2023-2024 með Netumferðaskólanum og fræðsluerindinu Algórtminn sem elur mig upp. Þá hefur nefndin einnig sinnt fræðslu til kennara og foreldrafélaga um allt land.

Kannanir Fjölmiðlanefndar sem lagðar eru fyrir með reglubundnum hætti gefa vísbendingar um breytingar á miðlanotkun og þekkingu á miðlalæsi. Á undanförnum árum hafa norrænar fjölmiðlanefndir unnið sameiginlega að því að láta búa til spurningakönnun sem lögð er fyrir á öllum Norðurlöndunum samtímis með það að markmiði að hægt verði að fá samanburðarhæfar niðurstöður svo að hægt sé að skoða notkun og þekkingu í hverju landi fyrir sig. Þannig verður hægt að sjá notkun, færni og þekkingu íslenskra barna í samanburði við dönsk, sænsk, norsk og finnsk börn. Er þess vænst að niðurstöðurnar geti hjálpað stjórnvöldum að koma auga á styrkleika en einnig áskoranir sem mun móta fræðslustarf Fjölmiðlanefndar og annara aðila sem sinna forvarnarstarfi í framhaldinu.

Niðurstöður rannsókna Fjölmiðlanefndar eru notaðar af sveitarfélögum, háskólum, skólum og í ýmiskonar fræðslu- og forvarnarstarfi svo sem hjá frístundaheimilum, samfélagslögreglunni og fleiri aðilum sem vinna með börnum og ungmennum.

Er þess vænst að þáttakendur sýni könnunni áhuga og skilning þar sem hún mun nýtast í ýmsum tilgangi, þ.m.t. fræðslustarfi.