Álit Fjölmiðlanefndar nr. 1/2025 vegna viðskiptaboða fyrir áfengi á mbl.is

Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Árvakur hf. hafi brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 með miðlun viðskiptaboða fyrir áfengi á mbl.is.


Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli kvörtunar þar sem kvartað var undan auglýsingu sem birst hafði á mbl.is fyrir tónleika hljómsveitarinnar Skálmaldar þar sem sást vörumerki „Tuborg Guld Pilsner“.

Í áliti Fjölmiðlanefndar kemur fram að auglýsingin teljist til viðskiptaboða fyrir áfengi og að með miðlun þeirra á mbl.is hafi Árvakur hf., sem fjölmiðlaveita netmiðilsins, þar með brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla sem bannar m.a. viðskiptaboð fyrir áfengi.

Fjölmiðlanefnd ákvað að falla frá sektarákvörðun í málinu með vísan til 1. málsl. 6. mgr. 54. gr. laga um fjölmiðla. Við þá ákvörðun var tekið mið af því að um óverulegt brot var að ræða að mati nefndarinnar. Var birting vörumerkis „Tuborg Guld Pilsner“ í tónleikaauglýsingunni lítt áberandi og afar smátt. Jafnframt var litið til skýringa og svara Árvakurs hf. og atvika máls að öðru leyti.

Álit Fjölmiðlanefndar nr. 1/2025