Fjölmiðlaveitum ber að tryggja aðgengi einstaklinga með sjón- og heyrnarskerðingu og þroskaröskun að myndmiðlunarefni:
Fjölmiðlaveitur sem miðla myndefni skulu „stöðugt og stigvaxandi“ gera þjónustu sína aðgengilega sjón- og heyrnarskertum auk þeirra sem búa við þroskaröskun. Úrræði til að tryggja aðgengi eru meðal annars táknmál, textun og hljóðlýsing. Er fjölmiðlaveitum nú skylt að endurmeta stöðugt hvort möguleiki sé á að bæta þjónustu við sjón- og heyrnarskerta, meðal annars með tilliti til tækniþróunar, ásamt því að gera áætlanir þar um og grípa til aðgerða á grundvelli þeirra. Þessar kröfur eru í samræmi við þau réttindi sem tryggð eru í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland hefur fullgilt.
Fjölmiðlaveitum er jafnframt skylt, ef brýna nauðsyn ber til og almannaheill krefst, að tryggja aðgengi sjón- og heyrnarskertra að miðlun á tilkynningum frá almannavörnum, löggæslu, slysavarnafélögum eða hjálparsveitum, meðal annars með táknmáli, textun og hljóðlýsingu.
Þá er fjölmiðlaveitum skylt að setja upplýsingar um aðgerðir og áætlanir sínar til að auka aðgengi sjón- og heyrnarskertra að myndefni í árlega skýrslu þeirra til Fjölmiðlanefndar.
Hægt er að leggja fram kvörtun til Fjölmiðlanefndar vegna meintra brota á lögum um fjölmiðla eða öðrum lögum sem nefndin hefur eftirlit með því að smella á hnappinn hér að neðan: