Uppfærðar starfsreglur og málsmeðferðarreglur Fjölmiðlanefndar ásamt leiðbeiningum um kvartanir og rétt til andsvara

Starfsreglur og málsmeðferðarreglur Fjölmiðlanefndar ásamt leiðbeiningum nefndarinnar um kvartanir og rétt til andsvara hafa verið uppfærðar. Nýjar reglur og leiðbeiningar voru samþykktar á fundi Fjölmiðlanefndar þann 30. janúar 2025.

Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 skal Fjölmiðlanefnd setja sér starfsreglur. Nýjar starfsreglur nr. 238/2025 leysa af hólmi eldri starfsreglur nefndarinnar nr. 1363/2011. Reglurnar voru birtar í B-deild Stjórnartíðinda þann 7. mars 2025 og öðluðust þá gildi. Málsmeðferðarreglum Fjölmiðlanefndar er ætlað að skýra og auka gagnsæi í málsmeðferð nefndarinnar og koma til fyllingar á starfsreglum hennar. Nálgast má starfsreglurnar hér og málsmeðferðarreglurnar hér.

Í leiðbeiningum Fjölmiðlanefndar um kvartanir og rétt til andsvara er að finna upplýsingar fyrir þá sem hyggjast leggja fram kvörtun til nefndarinnar vegna meintra brota á lögum um fjölmiðla eða öðrum lögum sem nefndin hefur eftirlit samkvæmt. Í leiðbeiningunum kemur fram hvernig slíkar kvartanir skulu settar fram og hvernig meðferð kvartana hjá Fjölmiðlanefnd er háttað. Jafnframt er fjallað um hvernig réttur til andsvara virkar samkvæmt 36. gr. laga um fjölmiðla. Nálgast má leiðbeiningarnar hér.