Staðbundnir fjölmiðlar: Flestir notuðu Akureyri.net til að nálgast fréttir 

Nærri fjórðungur (23,2%) notar Akureyri.net til að nálgast fréttir. Þetta kemur fram í niðurstöðum víðtækrar könnunar sem Maskína vann fyrir Fjölmiðlanefnd um hatursorðræðu, skautun, upplýsingaóreiðu og traust, þar sem m.a. var spurt út í notkun staðbundinna fjölmiðla til fréttalesturs. Á eftir Akureyri.net koma miðlarnir Skessuhorn og Bæjarins besta/bb.is en 15% þátttakenda kvaðst nota þann fyrrnefnda til að nálgast fréttir og 14,2% þann síðarnefnda. Álíka margir, eða 14%, sögðust nota Víkurfréttir í sama tilgangi en heldur færri sögðust nota Austurfrétt/Austurgluggann (12,7%), Vikublaðið (11,2%), Feyki (8,9%) og Eyjafréttir (6,4%). Fæstir sögðust nota Tígul (4,7%), DB blaðið (1,6%) og Bæjarblaðið Jökul (0,9%). Um það bil einn af hverjum fjórum, eða 24%, kvaðst nota aðra fjölmiðla en þá sem taldir voru upp í þessum hluta könnunarinnar.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá. Könnunin fór fram á netinu. Svarendur eru af öllu landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Við úrvinnslu voru gögnin vegin til samræmis við tölur Hagstofunnar þannig að hópurinn sem svarar endurspeglar þjóðina út frá kyni, aldri og búsetu. Við vigtun gagna getur birst örlítið misræmi í fjöldatölum og hlutföllum sem orsakast af námundun.

Gagnaöflun fór fram dagana 5.-11. desember 2024 og voru svarendur 951 talsins