Meira en helmingur þátttakenda, eða 62,1%, sagðist hafa orðið var við það að falsfréttum eða röngum upplýsingum hafi verið beitt til að hafa áhrif á niðurstöður alþingiskosninga á Íslandi 2024 sem er fjölgun frá árinu 2021 þegar hlutfallið mældist 46,6%. Þar af sögðust 12,8% þátttakenda hafa orðið varir við slíkar upplýsingar oft á dag síðustu 30 dagana fyrir kosningar. Af þeim sem sögðust hafa orðið varir við falsfréttir eða rangar upplýsingar í aðdraganda kosninganna sögðust rúmlega helmingur, eða 57,9%, telja að ákveðinn íslenskur stjórnmálaflokkur hafi borið ábyrgð á þeim. Kjósendur Flokks fólksins og Sjálfstæðisflokksins voru ólíklegastir til að segjast hafa orðið varir við falsfréttir eða rangar upplýsingar í aðdraganda kosninganna. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Fjölmiðlanefndar um falsfréttir og upplýsingaóreiðu í aðdraganda alþingiskosninga 2024. Skýrslan byggir á niðurstöðum könnunar Maskínu fyrir Fjölmiðlanefnd sem lögð var fyrir dagana eftir kosningar.

Flestir sögðust hafa séð falsfréttir á samfélagsmiðlunum Facebook og TikTok
Af þeim sem sögðust hafa orðið varir við falsfréttir eða rangar upplýsingar í aðdraganda kosninganna sögðust 65,2% hafa séð slíkar upplýsingar á samfélagsmiðlinum Facebook og 31,2% á samfélagsmiðlinum TikTok. 24,7% sögðust hafa séð falsfréttir eða rangar upplýsingar í sjónvarpi, 24,3% á ritstýrðum netmiðlum og 23,6% á samfélagsmiðlinum X (áður Twitter). 20,2% svarenda sögðust hafa séð slíkar upplýsingar á Instagram, 19,7% á óritstýrðum miðlum og 18,1% í útvarpi. Þá sögðust 17,3% hafa orðið varir við falsfréttir eða rangar upplýsingar í hlaðvarpi, 13,6% í ritstýrðum prentmiðlum og 13,4% á Youtube. Fæstir sögðust hafa séð slíkar upplýsingar á samfélagsmiðlinum Snapchat (4,2%) og á samskiptamiðli á borð við Messenger eða WhatsApp (3,5%).

Rúmur helmingur telur ákveðinn stjórnmálaflokk bera ábyrgð á falsfréttunum
Af þeim sem sögðust hafa orðið varir við falsfréttir eða rangar upplýsingar í aðdraganda kosninganna sagðist rúmlega helmingur, eða 57,9%, telja að ákveðinn íslenskur stjórnmálaflokkur hafi borið ábyrgð á þeim. Þá töldu 48,9% ábyrgðina á upplýsingunum liggja hjá ákveðnum íslenskum hagsmunasamtökum, 46,7% hjá íslenskum stjórnmálamanni og 37,8% hjá ákveðnum íslenskum áhrifavaldi. 34,5% töldu ákveðinn íslenskan fjölmiðil hafa borið ábyrgð á upplýsingunum og 32,4% töldu ákveðna ungliðahreyfingu íslensks stjórnmálaflokks hafa gert það. Einungis 19% þeirra sem svöruðu töldu erlendan aðila hafa borið ábyrgð á upplýsingunum.
Kjósendur Flokks fólksins og Sjálfstæðisflokksins ólíklegastir til að sjá falsfréttir
Þátttakendur í könnuninni sem sögðust kjósa Flokk fólksins (50,8%) og Sjálfstæðisflokkinn (40,3%) voru ólíklegastir til að hafa orðið varir við falsfréttir eða rangar upplýsingar í aðdraganda kosninganna. Kjósendur Pírata og VG voru líklegastir til að hafa orðið varir við falsfréttir eða rangar upplýsingar í aðdraganda kosninganna en aðeins 28,8% af kjósendum VG og 12,5% af kjósendum Pírata sögðust aldrei hafa orðið varir við slíkar upplýsingar. Þá sögðust 11,9 % af kjósendum Framsóknarflokksins, 13,6% af kjósendum Samfylkingarinnar, 5,4% af kjósendum Sósíalistaflokksins og 10,3% af kjósendum Viðreisnar hafa tekið eftir falsfréttum eða röngum upplýsingum tengdum kosningunum oft á dag í aðdraganda þeirra.

Helmingur treysti því að fjölmiðlar færðu þeim réttar upplýsingar og hlutlæga umfjöllun í aðdraganda kosninga
Þátttakendur voru spurðir hversu sammála eða ósammála þeir væru staðhæfingunni „Ég treysti fjölmiðlum til að færa mér réttar upplýsingar og hlutlæga umfjöllun í fréttaflutningi í tengslum við kosningar“. Rúmur helmingur (51,9%) þeirra sem tóku afstöðu sögðust sammála staðhæfingunni en þar af sögðust 8,9% vera mjög sammála. Þá kváðust 14,9% þátttakenda ósammála staðhæfingunni, þar af 6,3% mjög ósammála. Hlutfall þeirra sem sögðust hvorki sammála né ósammála staðhæfingunni var 33,2%. Marktækur munur var á svörum þátttakenda eftir því hvaða stjórnmálaflokk þeir hugðust kjósa. Kósendur Vinstri grænna báru mest traust til fjölmiðla í þessu tilliti, en 81,4% þeirra sögðust vera sammála staðhæfingunni, þar af 12,5% mjög sammála. Kjósendur Miðflokksins voru líklegastir til að vera ósammála staðhæfingunni en 33,7% þeirra sagðist vera ósammála staðhæfingunni og þar af 23% mjög ósammála.

38,3% fundu fyrir fréttaþreytu dagana í aðdraganda kosninga og 15% forðuðust fréttir
Í könnuninni var spurt út í fréttaþreytu og fréttaforðun í aðdraganda alþingiskosninganna. Alls sögðust 15,4% þátttakenda vera sammála fullyrðingunni „Ég reyni að forðast fréttir þessa dagana“ en þar af sögðust 10,3% vera fremur sammála henni og 5,1% mjög sammála. Heldur fleiri, eða 20,7%, sögðust vera í meðallagi sammála fullyrðingunni. Meirihluti þátttakenda, eða 63,9%, kvaðst þó ósammála fullyrðingunni. Þegar þátttakendur voru spurðir hversu sammála eða ósammála þeir væru fullyrðingunni „Ég finn fyrir fréttaþreytu hjá mér sjálfum/sjálfri/sjálfu þessa dagana“, sögðust 38,3% vera annað hvort fremur eða mjög sammála. Álíka hátt hlutfall, eða 39,1% sagðist vera annað hvort fremur eða mjög ósammála. Heldur lægra hlutfall, eða 22,6%, sagðist vera í meðallagi sammála fullyrðingunni. Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar með tilliti til kyns kemur í ljós að konur voru bæði líklegri til að segjast finna fyrir fréttaþreytu og forðast fréttir í aðdraganda alþingiskosninganna heldur en karlar.

Áhugi á stjórnmálum eykst milli ára
Alls sögðust 48,9% þátttakenda hafa annað hvort mikinn eða mjög mikinn áhuga á stjórnmálum. Þar af voru 28,3% sem kváðust hafa mikinn áhuga á þeim og 20,6% mjög mikinn áhuga. Um er að ræða hækkun frá árinu 2022 þegar einungis 12% þátttakenda sögðust hafa annað hvort mikinn eða mjög mikinn áhuga á stjórnmálum. Á móti fækkar þeim milli ára sem segjast annað hvort hafa lítinn eða engan áhuga á stjórnmálum eða úr 47% árið 2022 niður í 43,8% árið 2024. Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar með tilliti til kyns má sjá að karlar eru líklegri til að segjast hafa áhuga á stjórnmálum heldur en konur. Þannig voru nærri helmingi fleiri karlar (61,3%) sem sögðust hafa annað hvort mikinn eða mjög mikinn áhuga á stjórnmálum heldur en konur (35,7%). Þá má sjá fylgni milli menntunarstigs þátttakenda og áhuga þeirra á stjórnmálum en þeim mun hærra menntunarstig sem þeir höfðu þeim mun líklegri voru þeir til að hafa áhuga á stjórnmálum. Kjósendur Flokks fólksins voru mun ólíklegri en kjósendur annarra flokka til að segjast hafa áhuga á stjórnmálum.
