Þrír af hverjum fjórum notuðu samfélagsmiðla til að nálgast fréttir deginum fyrir könnun. Þá notuðu fleiri á aldrinum 18-29 ára slíka miðla til að nálgast fréttir en hefðbundna fréttamiðla, svo sem í sjónvarpi eða á fréttamiðlum á netinu. Þrátt fyrir þessa miklu notkun segjast aðeins um 7% þátttakenda bera mikið traust til samfélagsmiðla. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Fjölmiðlanefndar, Fjölmiðlar og traust. Þá kvaðst um helmingur þátttakenda bera mikið traust til dómstóla og um þriðjungur bar mikið traust til fjölmiðla. Alls urðu 71% vör við falsfréttir á netinu á síðustu 12 mánuðum og jókst hlutfallið um 12,3% samanborið við 2022. Á sama tíma hækkaði hlutfall þeirra sem brugðust við falsfréttum eða röngum upplýsingum á netinu með því að kanna aðrar heimildir, slá efni þeirra upp í leitarvél o.s.frv. Þrátt fyrir að fjölgun falsfrétta valdi áhyggjum er jákvætt að fleiri bregðist við þegar þeir rekast á slíkt.

Ungt fólk nálgast fréttir frekar á samfélagsmiðlum en hefðbundnum fréttamiðlum
Yngsti hópur svarenda (18-29 ára) sagðist nota fréttamiðla á netinu til að nálgast fréttir minnst allra aldurshópa en aðeins 74,5% þeirra kváðust hafa notað slíkan miðil síðast deginum fyrir könnun. Hlutfallið meðal hinna aldurshópanna sem nálguðust fréttir á slíkum miðlum deginum fyrir könnun var hins vegar að meðaltali 91,8%. Yngsti hópurinn sker sig þá sömuleiðis úr þegar kemur að notkun samfélagsmiðla til að nálgast fréttir. Alls kváðust 79,7% þátttakenda á aldrinum 18-29 ára nálgast fréttir á samfélagsmiðlum deginum fyrir könnun sem er tæpum 10% hærra hlutfall en meðaltal þeirra sem tóku sömu afstöðu í hinum aldurshópunum (70%). Þá er ljóst að fleiri á aldrinum 18-29 ára nálguðust fréttir á samfélagsmiðlum en hefðbundnum fréttamiðlum á netinu deginum fyrir könnun.

Rúmlega 70% urðu vör við falsfréttir
Alls sögðust 75,8% þátttakenda hafa rekist á upplýsingar á netinu sl. 12 mánuði sem þeir voru ekki vissir um að væru sannar en það er tæplega 7% hækkun frá árinu 2022. Hlutfall þeirra sem urðu varir við falsfréttir jókst einnig en 71% aðspurðra kváðust hafa séð falsfréttir, fengið þær sendar eða rekist á þær með öðrum hætti á netinu á síðustu 12 mánuðum sem er 12,3% aukning frá árinu 2022. Þá sagðist fjórðungur (24,6%) hafa myndað sér ranga skoðun á opinberri persónu, t.d. stjórnmálamanni eða frægri manneskju, vegna villandi upplýsinga um hana á ýmsum miðlum, sem er sömuleiðis hækkun frá árinu 2022. Á móti lækkar hlutfall þeirra sem sögðust ekki hafa upplifað neitt af ofantöldu á milli kannana úr 20% niður í 13,9%.

Fleiri bregðast við falsfréttum og röngum upplýsingum á netinu
Þátttakendur voru spurðir hvernig þeir brugðust við þegar þeir rákust síðast á frétt á netinu og drógu þá ályktun að hún væri röng eða að um falsfrétt væri að ræða. Tæpur helmingur (45,7%) kannaði aðrar heimildir sem hann treysti og tæpur þriðjungur (31,4%) sló efni fréttarinnar inn í leitarvél til að kanna hvort hún væri sönn. Rúmur fjórðungur (26,9%) skoðaði aðrar fréttir sem birtar höfðu verið á vefmiðlinum en 16,7% blokkuðu vefsíðuna eða þann sem sendi fréttina eða deildi henni. Alls könnuðu 11,8% vefslóð/URL, https eða IP-tölu viðkomandi vefmiðils, 9,5% könnuðu upplýsingar um eigendur/ritstjórn vefmiðilsins, 9,2% leituðu ráða hjá öðrum og 7,9% könnuðu hvort fréttin væri sönn með aðstoð staðreyndarvaktar. Þá var fjórðungur (25,6%) sem gerði ekkert en það er töluverð fækkun frá árinu 2022 þegar 43,2% kváðust ekki hafa gert neitt. Ber þá að nefna að hlutfallið hækkaði í öllum svarmöguleikunum frá árinu 2022 nema í „gerði ekkert“. Aukinn fjöldi falsfrétta er vissulega áhyggjuefni en jákvætt er að fleiri bregðast nú við þegar þeir verða varir við slíkt en áður.

Rúmur helmingur dregur sig úr umræðum á netinu vegna ögrana eða háðs
Ögranir og/eða háð hefur haft neikvæð áhrif á þátttöku rúmlega helmings svarenda (50,4%) og hækkar hlutfallið um rúm 7% milli ára. Alls sagðist tæpur fjórðungur (24,4%) hafa brugðist við með þeim hætti að vera varkárari í að lýsa skoðunum sínum á netinu, 22,9% hættu að taka þátt í umræðum á netinu og 14,9% ákváðu að taka frekar þátt í umræðum í lokuðum hópum. Það veldur áhyggjum að hlutfall fólks í samfélaginu sem upplifir óöryggi í umræðum á netinu og dragi sig að einhverjum hluta til hlés fari hækkandi. Með því skapast hættan á því að samtalið á netinu endurspegli ekki samfélagið sem heild því hluti fólks treystir sér ekki til þess að taka þátt.


Meirihluti sammála að miðlar Ríkisútvarpsins og Sýnar séu óháðir í sinni umfjöllun
Yfir helmingur þátttakenda sagðist vera annað hvort nokkuð eða mjög sammála því að miðlar Ríkisútvarpsins, þ.e. Rúv, Rás1, Rás2 og Rúv.is, og miðlar Sýnar, þ.e. Vísir.is, Stöð2 og Bylgjan, væru óháðir pólitískum, efnahagslegum eða öðrum sérhagsmunum þegar þeir fjalla um samfélagið og umheiminn. Þá var tæplega helmingur sammála því að Heimildin.is (47,9%), Bændablaðið (47,2%) og K100 (43,5%) séu óháðir í sinni umfjöllun. Um þriðjungur var sammála í tilfelli Dv.is (36,7%), Mbl.is (33,3%), Viðskiptablaðsins (30,8%), Morgunblaðsins (29.9%), Nútímans (29,7%) og Mannlífs.is (27,1%). Færri voru sammála því að Fréttin.is (22,9%), Samstöðin.is (20,8%) og Útvarp Saga (15,3%) væru óháðir í sinni umfjöllun. Þá sögðust 29,3% vera sammála því að samfélagsmiðlar væru óháðir pólitískum, efnahagslegum eða öðrum sérhagsmunum þegar þeir fjalla um samfélagið og umheiminn.

Mest traust til dómstóla, en minnst til samfélagsmiðla
Tæpur helmingur svarenda, eða 47,4%, sagðist bera annað hvort fremur eða mjög mikið traust til dómstóla á Íslandi en það er tæplega 15% hækkun frá árinu 2022. Þá tóku 35% sömu afstöðu til fjölmiðla á Íslandi og hækkar hlutfallið um 5% á milli kannana. Þrátt fyrir smávægilega hækkun frá árinu 2022 er áhyggjuefni að aðeins rétt rúmlega þriðjungur beri mikið traust til fjölmiðla hér á landi. Tæpur fjórðungur, eða 24,1%, sagðist bera mjög mikið eða fremur mikið traust til fólks sem það þekkir ekki á Íslandi en aðeins 6,9% tóku sömu afstöðu til samfélagsmiðla. Standa þær niðurstöður nánast í stað frá síðustu könnun.

Tveir af hverjum fimm telur flóttamannastraum frá Miðausturlöndum grafa undan norrænum og kristnum gildum
Þátttakendur voru spurðir hversu sammála þeir væru fullyrðingunni „verið er að grafa undan norrænum og kristnum gildum með því að beina hingað vísvitandi straumi flóttamanna frá Miðausturlöndum“. Alls voru 39,7% þátttakenda annað hvort að hluta til eða mjög sammála fullyrðingunni en hlutfallið hefur hækkað um 16,3% frá árinu 2022 þegar aðeins 23,4% tóku sömu afstöðu. Skýr munur er á afstöðu hægri- og vinstrisinnaðra til fullyrðingarinnar en 69,2% hægrisinnaðra sögðust vera annað hvort að hluta til eða mjög sammála fullyrðingunni en tæplega sjöfalt færri, eða 10%, vinstrisinnaðra tóku sömu afstöðu. Þá voru þrír af hverjum fjórum (75,3%) vinstrimönnum alls ekki sammála fullyrðingunni en aðeins 14,9% hægrimanna.
