Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Ríkisútvarpið ohf. hafi brotið gegn 4. mgr. 7. gr. laga um Ríkisútvarpið nr. 23/2013 með birtingu viðskiptaboða umfram leyfilegt hámark innan hverrar klukkustundar fyrir frumsýningu Áramótaskaupsins sem sýnt var í sjónvarpi RÚV 31. desember 2024.
Málið var tekið til meðferðar á grundvelli kvörtunar sem barst þann 13. janúar 2025 þar sem fram kom að Ríkisútvarpið ohf. hefði látið framleiða auglýsingu fyrir Rás 2 sem frá áramótum hefði verið sýnd ítrekað í sjónvarpi RÚV utan skilgreindra auglýsingahólfa. Að mati kvartanda bæri að skilgreina auglýsinguna sem viðskiptaboð enda félli hún undir hvoruga undanþáguna í a- og b-lið 4. mgr. 7. gr. laga um Ríkisútvarpið. Með birtingu auglýsingarinnar, ásamt öðrum viðskiptaboðum, væri Ríkisútvarpið ohf. að birta viðskiptaboð umfram það leyfilega átta mínútna hámark sem fram kæmi í 4. mgr. 7. gr. laga um Ríkisútvarpið. Þetta hefði til dæmis átt við um heildarlengd auglýsinga fyrir frumsýningu Áramótaskaupsins 2024.
Fjölmiðlanefnd ákvað að afmarka málið við miðlun viðskiptaboða fyrir frumsýningu Áramótaskaupsins þann 31. desember 2024. Í ákvörðun Fjölmiðlanefndar kemur fram að auglýsingin fyrir Rás 2 teljist vera viðskiptaboð þar sem hún falli ekki undir þær undantekningar sem fram koma í a- og b-lið 4. mgr. 7. gr. laga um Ríkisútvarpið. Í ljósi þessa hafi meginregla fyrsta málsliðar 4. mgr. 7. gr. laganna gilt um auglýsinguna þar sem segir að hlutfall viðskiptaboða innan hverrar klukkustundar við myndmiðlun skuli ekki fara yfir átta mínútur. Í ákvörðuninni kemur einnig fram að heildarlengd viðskiptaboða, að meðtalinni auglýsingu fyrir Rás 2, fyrir frumsýningu Áramótaskaupsins 2024 hafi verið 9 mínútur og 36 sekúndur og því 1 mínútu og 36 sekúndur umfram það leyfilega hámark sem kveðið er á um í 4. mgr. 7. gr. laga um Ríkisútvarpið.
Fjölmiðlanefnd ákvað að leggja stjórnvaldssekt á Ríkisútvarpið ohf. vegna málsins. Við þá ákvörðun var tekið mið af því að Ríkisútvarpið ohf. hefði áður brotið gegn 4. mgr. 7. gr. laga um Ríkisútvarpið. Jafnframt var litið til eðlis brotsins og atvika máls að öðru leyti. Taldi Fjölmiðlanefnd hæfilegt að sektin næmi 500.000 kr.