Netvís – Netöryggismiðstöð Íslands formlega tekin til starfa 

Netvís – Netöryggismiðstöð Íslands hefur nú hafið formlega starfsemi og tekur við hlutverki SAFT sem íslenskt Safer Internet Centre. Með stofnun Netvís hefur verið stigið mikilvægt skref í átt að öruggara, ábyrgara og heilbrigðara stafrænu samfélagi.

Netvís gegnir hlutverki miðlægrar upplýsingamiðstöðvar um félagslegt netöryggi og miðlalæsi og er leiðandi í rannsóknum, fræðslu, forvörnum og vitundarvakningu á því sviði. Meginmarkmið Netvís er að efla þekkingu, hæfni og vitund almennings til öruggrar og ábyrgrar þátttöku í stafrænu samfélagi, með sérstakri áherslu á vernd barna og ungmenna gegn ofbeldi og misnotkun á netinu. Þá leiðir miðstöðin Tengslanet um upplýsinga og miðlalæsi, öflugan samstarfsvettvang ólíkra aðila sem vinna að sömu markmiðum með einum eða öðrum hætti á landsvísu.

Grunnstefið í starfsemi Netvís er að stuðla að félagslegri sjálfbærni og virða mannréttindi barna í stafrænu umhverfi, í samræmi við almennar athugasemdir nr. 25 frá Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna. Þá styður Netvís við stefnu Evrópusambandsins um öruggara stafrænt umhverfi fyrir börn (BIK+) og innleiðingu reglugerðarinnar Digital Services Act (DSA), þegar sú löggjöf tekur gildi hér á landi.

Netvís er jafnframt virkur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi um netöryggi og miðlalæsi, meðal annars í gegnum evrópsku tengslanetin Insafe og INHOPE, sem sameina netöryggismiðstöðvar og ábendingalínur víðsvegar um Evrópu. Einnig tekur Netvís þátt í samstarfi á vettvangi EBMS og EPRA, þar sem áhersla er lögð á vernd lýðræðisins með auknu viðnámsþoli þjóða gegn upplýsingaóreiðu.

Það er mikið gleðiefni að geta loksins svipt hulunni af afrakstri vinnu síðustu ára og kynnt Netvís til leiks. Netöryggi snertir okkur öll og á sér tvær hliðar, þ.e. bæði tæknilegt og félagslegt. Í netöryggisáætlunum landsins ætti alltaf að horfa bæði til þess að tryggja tæknilega innviði og vernda fólk sem notendur. Sviðið teygir anga sína víða, allt frá fræðslu til barna og ungmenna, yfir í alþjóðlegt samstarf og að standa vörð um lýðræði og þjóðaröryggi. Stofnun Netvís er löngu tímabært skref og hlökkum við til þess að vinna markvisst að því að efla hugtakaskilning, vitund og valdeflingu almennings á þessu sviði, segir Skúli Bragi Geirdal, sviðsstjóri Netvís – Netöryggismiðstöðvar Íslands.

Netvís starfar undir Fjölmiðlanefnd og heyrir undir menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið. Stýrihópur Netvís er skipaður fulltrúum ráðuneyta og helstu samstarfsaðila og sérstakt ráðgjafaráð þess tryggir breiða og öfluga þátttöku mismunandi hagsmunaaðila.

Á nýjum vef Netvís, netvis.is, má finna fjölbreytt fræðsluefni, rannsóknarskýrslur, viðburði og aðrar gagnlegar upplýsingar tengdar félagslegu netöryggi og miðlalæsi.