Fundur með sérfræðingum frá Myndigheten för psykologist försvar í Svíþjóð 

Í dag stóðu Fjölmiðlanefnd og Ríkislögreglustjóri fyrir fundi með áhugasömu starfsfólki innan stjórnsýslunnar, fræðasamfélagsins og fjölmiðla í samstarfi við sænsku stofnunina Myndigheten för psykologiskt försvar. Fundurinn bar heitið: Þurfum við að hafa áhyggjur af undirróðursherferðum erlendra ríkja?

Á undanförnum árum hafa orðið miklar breytingar á tækni og því hvernig almenningur aflar sér upplýsinga. Á sama tíma hefur áhersla aukist á öryggis- og varnarmál, m.a. fjölþáttaógnir, vegna innrásarinnar í Úkraínu, átaka í miðausturlöndum og breytinga í pólitísku landslagi. Upplýsingaóreiða, ógagnsæir algóritmar samfélagsmiðla, djúpfalsanir með tilkomu gervigreindar og ýmsar áskoranir í aðdraganda kosninga hafa gert það að verkum að aukin áhersla er nú lögð á fræðslu og menntun til að auka áfallaþol þjóða.

Á fundinum fjölluðu sérfræðingar frá sænsku stofnuninni Myndigheten för psykologiskt försvar um það hvernig unnið er þar í landi gegn undirróðursherferðum frá erlendum ríkjum sem er ætlað að skaða sænska hagsmuni. Markmið fundarins var að kynna nálgun sænskra stjórnvalda á það hvernig hægt er að greina og bregðast við undirróðursherferðum frá erlendum ríkjum sem er ætlað að skaða innlenda hagsmuni en um leið að vernda tjáningarfrelsið og hið opna lýðræðislega samfélag.

Myndigheten för psykologiskt försvar heyrir undir varnarmálaráðuneytið í Svíþjóð og hefur það hlutverk að styrkja áfallaþol sænsku þjóðarinnar gagnvart undirróðursherferðum erlendra ríkja. Megin verkefni stofnunarinnar er að bjóða upp á stuðning við stofnanir, sveitarfélög og samtök auk þess að bera kennsl á, greina og veita stuðning við að sporna gegn undirróðursherferðum erlendra ríkja. Þetta geta verið rangfærslur eða herferðir sem miða m.a. að því að veikja samfélagslega samheldni og vilja sænsku þjóðarinnar til að verja sig.