Opnað hefur verið fyrir umsóknir um rekstrarstuðning til einkarekinna fjölmiðla

Auglýst er eftir umsóknum einkarekinna fjölmiðla um rekstrarstuðning sem veittur verður á árinu 2025. Umsóknum skal skilað í gegnum vefgátt á vef Fjölmiðlanefndar, sem má finna hér að neðan og er umsóknarfrestur til og með 16. nóvember 2025.

Með lögum nr. 66/2025 um breytingu á lögum um fjölmiðla nr. 38/2011, sem samþykkt voru á Alþingi 16. október 2025, var úthlutunarnefnd veitt heimild til að veita rekstrarstuðning til einkarekinna fjölmiðla, sbr. X. kafla B laga um fjölmiðla nr. 38/2011.

Í X. kafla B laga um fjölmiðla nr. 38/2011, sbr. breytingalög nr. 66/2025, og reglugerð nr. 1115/2025 um rekstrarstuðning til einkarekinna fjölmiðla, eru tilgreind skilyrði fyrir rekstrarstuðningi til einkarekinna fjölmiðla og einnig getið sérstakra atriða sem þurfa að koma fram í umsókn. Er umsækjendum bent á að kynna sér þau og einnig hvaða kröfur eru gerðar um gögn sem eiga að fylgja umsókn. Samkvæmt lögunum sér Fjölmiðlanefnd um umsýslu umsókna og veitir úthlutunarnefnd sérfræðiaðstoð eftir nánara samkomulagi.

Til úthlutunar árið 2025 verða 550 millj. kr. að frádreginni þóknun fyrir störf úthlutunarnefndar og öðrum kostnaði við umsýslu. Í 62. gr. i laga um fjölmiðla, sbr. fyrrgreind breytingalög, kemur fram að rekstrarstuðningur skuli að hámarki vera 25% af stuðningshæfum rekstrarkostnaði umsækjanda. Stuðningur til hvers umsækjanda getur þó ekki orðið hærri en sem nemur 22% af fjárveitingu til verkefnisins. Þá ráðist endanlegt hlutfall af umfangi og fjölda umsókna. Staðbundnir fjölmiðlar utan höfuðborgarsvæðisins, þar sem efnisskírskotun er staðbundin og höfðar aðallega til notenda sem tengsl hafa við útbreiðslusvæði miðils, hljóta 20% álag á fjárhæð styrks.

Stuðningskerfi til einkarekinna fjölmiðla felur í sér ríkisaðstoð í skilningi 61. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, og er stuðningurinn tilkynningarskyldur til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) áður en hann kemur til framkvæmda. Styrkjakerfið hefur áður verið samþykkt af ESA með ákvörðun nr. 206/21/COL, sbr. einnig ákvörðun ESA nr. 125/23/COL. Athygli er vakin á því að upplýsingar um styrkveitingar verða birtar opinberlega í samræmi við reglur ESA þar að lútandi.

Umsóknum ásamt fylgigögnum skal skilað í gegnum vefgátt á vef Fjölmiðlanefndar fyrir miðnætti 16. nóvember nk. Ef spurningar vakna varðandi útfyllingu umsóknar má senda fyrirspurn á postur@fjolmidlanefnd.is.