Dæmd fyrir að deila myndum af dóttur sinni á Facebook

Nýlega féll dómur í undirrétti í Hålogaland  í Noregi þar sem móðir var dæmd fyrir að deila myndum af sjö ára dóttur sinni á Facebook. Í dómnum kemur fram að ekki sé heimilt að deila hvaða myndum sem er af börnum á samfélagsmiðlum.

Málið snerist þó ekki um meinlausar myndir úr sumarfríi fjölskyldunnar, heldur myndir og myndbönd sem móðirin hafði deilt af dóttur sinni til að vekja athygli á baráttu sinni við barnaverndarnefnd vegna barnsins. Konan hafði stofnað Facebook-hópinn „[Nafn barnsins] heim!“ og birt myndir og myndskeið af dóttur sinni þar. Á myndskeiðunum sást barnið í viðkvæmum aðstæðum og í einhverjum tilvikum grátandi.

Samkvæmt dómnum eru takmörk fyrir því hvernig myndum og upplýsingum foreldrum er heimilt að deila um börn sín á samfélagsmiðlum. Var móðirin dæmd til sektargreiðslu að upphæð 12.000 norskra kr. (168.000 íslenskra kr.) fyrir að hafa brotið með refsinæmum hætti gegn friðhelgi einkalífs stúlkunnar.

Í Noregi er dómurinn talinn geta stulað að vitundarvakningu meðal foreldra um réttindi barna og þá sér í lagi um rétt þeirra til friðhelgi einkalífs. Margir foreldrar deila stoltir mikilvægum augnablikum í lífi barna sinna á samfélagsmiðlum en þetta mál minnir á að það er einnig hlutverk foreldra að vernda einkalíf barna sinna.

Hér má nálgast viðmið vegna umfjöllunar um börn á samfélagsmiðlum.