Átakið Stoppa, hugsa, athuga náði til 230 þúsund manns

Árvekniátakið Stoppa, hugsa, athuga, sem fram fór á Facebook og Instagram í vor vakti mikla athygli og náði til alls 230 þúsund einstaklinga hér á landi. 

Að baki átakinu stóðu fjölmiðlanefnd, í samstarfi við Embætti landlæknis og Vísindavefinn. Þá studdi Facebook verkefnið með því að birta fræðsluefni tengt átakinu án endurgjalds. 

Átakið hófst þann 20. maí 2020, með birtingu fræðsluefnis á Facebook, Instagram og á vef fjölmiðlanefndar, og stóð í fjórar vikur. Að þessu sinni var sjónum sérstaklega beint að rangfærslum og misvísandi upplýsingum vegna COVID-19 á samfélagsmiðlum. Átakið samanstóð meðal annars af myndbandi, spurningaleik og fræðsluefni á vef fjölmiðlanefndar, þar sem finna mátti hlekki á upplýsingar um COVID-19 á Vísindavefnum og á vef Embættis landlæknis.

Fræðsluefni sem birt var í tengslum við átakið náði til alls 232.256 einstaklinga á Íslandi og fékk átakið samtals rúmlega 2 milljónir áhorfa.

Yfir 15.000 manns kynntu sér fræðsluefni á vef fjölmiðlanefndar í gegnum auglýsingar á samfélagsmiðlum og um 250 deildu efninu áfram á Facebook. Um 14.000 manns til viðbótar heimsóttu vefinn eftir að hafa tekið þátt í spurningaleiknum. 

Spurningaleikurinn vakti athygli um 22.000 manns, sem smelltu á hann og 8871 manns vörðu rúmum fjórum mínútum að meðaltali í að svara spurningunum. Margir svöruðu öllum spurningunum í leiknum rétt. Til dæmis svöruðu 89% þátttakenda eftirfarandi spurningu rétt. 

Þess skal getið að knattspyrnumaðurinn Birkir Bjarnason og Hafliði Breiðfjörð, sem tók myndina af Birki fyrir Fótbolta.net, veittu báðir góðfúslegt leyfi fyrir birtingu hennar. Um var að ræða „raunverulega falsfrétt“ þ.e. falsfrétt sem birst hafði notendum Facebook á Íslandi nokkrum vikum áður.

Enginn marktækur munur var á þátttöku og áhorfi eftir kynjum en þegar litið er til aldurshópa kom í ljós að átakið náði hvað best til eldri aldurshópa og þá sér í lagi aldurshópsins 65 ára og eldri.

Árvekniátakið Stoppa, hugsa, athuga byggði á norskri fyrirmynd og var efnið þýtt og staðfært af starfsmönnum fjölmiðlanefndar, með góðfúslegu leyfi Medietilsynet i Noregi.

Markmiðið með átakinu var að beina sjónum almennings að dreifingu rangra og misvísandi upplýsinga á samfélagsmiðlum og mikilvægi þess að geta greint á milli falsfrétta og raunverulegra frétta. Markmiðið var jafnframt að efla gagnrýna hugsun og miðlalæsi almennings og benda á mikilvægi faglegra fjölmiðla. Að sögn Elfu Ýrar Gylfadóttur, framkvæmdastjóra fjölmiðlanefndar, má vænta meira fræðsluefnis um miðlalæsi frá fjölmiðlanefnd, enda er nefndinni lögum samkvæmt ætlað það hlutverk að efla miðlalæsi almennings.

Með því að smella hér á fjolmidlanefnd.is/stoppa-hugsa-athuga/ má fara inn á fræðslusíðuna, horfa á myndbandið og taka þátt í spurningaleiknum.

Myndbandið hefur einnig verið gert aðgengilegt á YouTube síðu fjölmiðlanefndar og er notkun þess í fræðsluskyni öllum heimil.

Uppfært 4.9. 2020: Fyrir mistök var greint frá því í fréttinni að myndbandið, sem var einn hluti af árvekniátaki fjölmiðlanefndar, hefði hlotið  samtals 2 milljónir áhorfa. Hið rétta er að átakið í heild er talið hafa hlotið rúmlega 2 milljónir áhorfa og náði það sem fyrr segir til rúmlega 230.000 manns hér á landi.