„Þetta er svo skrítið með hlaðvörpin. Þú getur verið með hlaðvarp, þar sem bara einhver einn er að tala eins og þetta sé bloggsíða viðkomandi, og þetta sama hlaðvarp getur verið með fimm hlustanir eða milljónir,“ segir Halldóra Þorsteinsdóttir, héraðsdómari og sérfræðingur í fjölmiðlarétti, um hlaðvörp í viðtali hjá Skúla B. Geirdal. Fjöldi fyrirspurna, ábendinga og kvartana vegna auglýsinga í íslenskum hlaðvörpum hafa borist nefndinni sem vakið hafa upp spurningar um starfsemi hlaðvarpa. Því hefur Fjölmiðlanefnd farið þá leið að gefa út leiðbeiningar um skráningu hlaðvarpa á grundvelli laga um fjölmiðla sem nálgast má hér.

Á síðustu árum hafa einstaklingar í auknum mæli sett á laggirnar sín eigin hlaðvörp, enda hefur það aldrei verið eins auðvelt. Hlaðvörp njóta sífellt meiri vinsælda og hefur markaðshlutdeild þeirra aukist í takti við það. Mörg þeirra hafa nú fjölda kostenda og/eða auglýsinga. Í sumum tilvikum hlusta þúsundir á hvern þátt og eru slík hlaðvörp í beinni samkeppni við aðra fjölmiðla um hlustendur og kostendur.
Hlaðvarp getur talist fjölmiðill eins og útvarp
Halldóra segir að meta þurfi hvert hlaðvarp fyrir sig út frá þeim forsendum sem liggi fyrir í hverju tilviki. „Þegar að við erum að skilgreina fjölmiðla almennt þá er miðað við að þar sé einhver tiltekin ritstjórn og þetta sem felst í þessum áþreifanlegu dæmum sem við höfum um fjölmiðla eins og t.d. fréttaflutningur, stjórn á efninu sem er miðlað og það með reglulegri tíðni, útbreiðslu og dreifingu til manna. Ef við getum heimfært hlaðvarp undir þessi skilyrði þá er hlaðvarp ekkert minni fjölmiðill en útvarp.“

Við mat á því hvort hlaðvarp teljist fjölmiðill og sé þar með skráningarskylt hjá fjölmiðlanefnd er litið til þess hvort hlaðvarpið uppfylli skilyrði laga um fjölmiðla, sbr. 13. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna þ.e. að miðla með reglubundnum hætti til almennings efni er lýtur ritstjórn. Þrátt fyrir að uppfylla þetta skilyrði er ekki sjálfgefið að hlaðvarp teljist fjölmiðill í skilningi laga um fjölmiðla.
Eitt hlaðvarp ekki það sama og annað
„Svo getur þú verið með hlaðvarp þar sem ég ætla mér að senda út einn þátt á morgun og svo aldrei neitt meira. Það er engin ritstjórn, ég er bara að tala við sjálfa mig, um mín hugðarefni og segja frá því sem ég er að gera. Það er auðvitað ekki fjölmiðill. Þannig að það er ekki hægt að svara því að eitt hlaðvarp sé það sama og eitthvað annað. Að mínu mati eru lögin í dag þannig að sum hlaðvörp geta flokkast undir það að vera fjölmiðill. Ef þau uppfylla ákveðin skilyrði og þá er það ekki af því að mér finnst það heldur afþví að lögin mæla fyrir um það,“ segir Halldóra.

Í 2. gr. starfsreglna fjölmiðlanefndar nr. 1363/2011 kemur t.a.m. fram að persónubundnar bloggsíður falli almennt utan hugtaksins fjölmiðill í skilningi laganna. Þá falla einstaklingsbundin og persónuleg samskipti á netinu, t.d. á vettvangi Facebook, einnig utan hugtaksins. Ólíklegt verður því að teljast að hlaðvarp sem svipar til bloggsíðu að efni til myndi teljast fjölmiðill í skilningi laga um fjölmiðla þótt það uppfylli skilyrði laganna.
Sömu verndarhagsmunir í húfi til að mæla fyrir um tilteknar reglur
„Þó svo að lögin séu tiltölulega ný þá hefur þetta breyst svo hratt að við þurfum að mæta þessum nýju miðlum. Við getum flokkað þetta svona í dag en ég myndi vilja sjá betri og ítarlegri skilgreiningu á því hvað sé hlaðvarp og þá með hliðsjón af markmiðinu. Þá ekki bara hvort það sé ritstjórn eða mikil dreifing heldur hvort markmiðið sé það sama og hjá fjölmiðlum almennt. Að flytja fréttir, ná til almennings og vera hluti af umræðunni. Ef það er til staðar þá eru algjörlega sömu verndarhagsmunir í húfi til að mæla fyrir um tilteknar reglur á þetta fyrirbæri. Alveg nákvæmlega eins og þegar að við byrjuðum að vera með reglur fyrir fjölmiðla. Það var af því að við vissum að það yrði þessi mikla útbreiðsla og það þarf eðlilega að setja reglur um eitthvað sem nær þetta mikilli útbreiðslu. Það eru allir sammála um það,“ segir Halldóra.

Það er skýr vísbending um að miðlun efnis falli undir hugtakið fjölmiðill þegar fjölmiðlaveita hefur það að atvinnu að miðla fjölmiðlaefni og ber þannig ábyrgð á ritstjórnarlegri skipan og endanlegri samsetningu fjölmiðilsins. Þjónusta sem ekki hefur þann megintilgang fellur á hinn bóginn sjaldnast undir hugtakið fjölmiðil í skilningi laganna.
Ekki gott að leyfa frítt spil á samfélagsmiðlum
„Svo er hitt í þessu að ég held að það megi fara að skoða þetta alveg heildstætt og þá líka með tilliti til samfélagsmiðlanna. Við sjáum að það er auðvitað ekki gott að leyfa frítt spil hjá öllum samfélagsmiðlum, án tillits til stærðar, útbreiðslu eða efnis. Við vitum að þetta er efni sem t.d. unga fólkið er að sjá. Af hverju erum við að setja ákvæði sem vernda börn fyrir t.d. ofbeldi í kvöldfréttum ef við leyfum síðan bara allt hjá vinsælasta samfélagsmiðlakónginum? Þá getum við allt eins bara sleppt þessu. Auðvitað er þetta til skoðunar á vettvangi Evrópusambandsins og svona almennt þá er verið að skoða hvernig hægt sé að aðlaga regluverkið að nýjum miðlum. Ég held að það megi alveg gerast fyrr en í gær,“ segir Halldóra.

Ef fjárhagslegur ávinningur er af miðlun hlaðvarps er það sterk vísbending um að skrá beri hlaðvarpið sem fjölmiðil hjá fjölmiðlanefnd. Þetta getur verið með t.d. auglýsingum, kostunum eða annars konar viðskiptaboðum eða áskrift eða annars konar miðlun efnis gegn gjaldi.
Það getur alveg verið einn ritstjóri
„Þú getur alveg verið með fjölmiðil þar sem bara einn er að ritstýra. Þá kemur upp ákveðin viðbótarkrafa um hvort það sé regluleg dreifing og hvort þetta sé útgefið efni. Ég er hins vegar ekkert heima hjá mér í bílskúr og segist vera að ritstýra því sem ég er að dreifa og læt síðan engan nema fjölskylduna hlusta, auðvitað væri það ekki fjölmiðill. En um leið get ég verið nákvæmlega sama manneskjan bara með aðeins annað umhverfi og þá er ég orðin fjölmiðill. Það er ekki bara hægt að tikka í ákveðin box því þú getur alveg verið einn með risa fjölmiðil,“ segir Halldóra.

Örðugt er að setja fram tæmandi talningu atriða sem áhrif geta haft á það hvort miðill teljist fjölmiðill eða ekki í skilningi laga um fjölmiðla. Upp geta komið ýmis takmarkatilvik sem leysa þarf úr hverju sinni á grundvelli heildstæðs mats.
Mun meiri ástæða til að styrkja fjölmiðla þegar að margir dreifa efni
„Það er líka þessi trúverðugleiki. Við viljum hafa sterka fjölmiðla. Ég vil hlusta á fréttir í fjölmiðlum. Ég vil ekki hlusta á fréttir hjá bara einhverjum með einhverjar gróusögur á samfélagsmiðlum. Með fullri virðingu fyrir stórum samfélagsmiðlastjörnum þá vil ég ekki taka mínar fréttir þaðan. Ég vil fá mínar fréttir frá fólki sem er að vinna og garfa í fréttum og vinnur eftir gildum um hlutlægni, réttsýni, sannleika og fleira. Þannig að við getum ekki bara gefist upp fyrir því að skilja þarna á milli. Við eigum að styrkja fjölmiðla og vanda til verka í að hafa sterka fjölmiðla. Sérstaklega þegar að svo margir telja sig vera fjölmiðil eða telji sig hafa einkenni fjölmiðils. Þegar að margir eru að dreifa efni þá er þeim mun meiri ástæða til að styrkja fjölmiðlana sem við höfum og vinna eftir þessum gömlu góðu gildum,“ segir Halldóra.

Ekki er litið á upplýsingamiðlun stjórnvalda (ráðuneyta, ríkisstofnana, sveitarfélaga og annarra sambærilegra aðila) sem fjölmiðla sem falla undir gildissvið laga um fjölmiðla. Fjölmiðlun í atvinnuskyni er ekki megintilgangur slíkrar upplýsingamiðlunar og hún felur ekki í sér tekjuöflun í gegnum t.d. auglýsingar eða áskriftir. Það sama á við um vefsíður opinberra aðila, eins og stjórnvalda, sveitarfélaga og stéttarfélaga. Það eru heldur ekki fjölmiðlar í skilningi laganna.
Þarf að uppfylla skilyrðin til að geta talist fjölmiðill
„Bara þessi fréttabréf til dæmis, þú getur verið með eitthvað sem þú ætlar að senda bara einu sinni og er bara meira í formi auglýsingar þar sem þú ert að minna á þig. Eins og Krabbameinsfélagið sem er að minna á sinn styrktarreikning, það telst ekki vera fjölmiðlun. Síðan getur þú verið með t.d. Persónuvernd eða Neytendastofu sem eru inni hjá sér að að vinna að því markmiði að koma áleiðis skilaboðum til almennings í þeirra almannaþjónustuhlutverki í því augnamiði að gera almenning meðvitaðri um reglurnar. Þá er kannski eitthvað hlaðvarp þar sem er verið að telja upp reglurnar eða ræða þær. Það er ekki fjölmiðlun ef það uppfyllir ekki þessi skilyrði,“ segir Halldóra.