Árvekniátak í aðdraganda alþingiskosninga

Fjölmiðlanefnd stendur nú fyrir árvekniátakinu Stoppa, hugsa, athuga með stuðningi frá Facebook. Á síðasta ári var sjónum beint að COVID-19 falsfréttum í sambærilegu árvekniátaki sem fram fór í samstarfi við Embætti landlæknis og Vísindavefinn. Nú er athyglinni beint að því hvernig við greinum og metum upplýsingar á netinu og hvernig við bregðumst við ummælum og staðhæfingum á samfélagsmiðlum og í athugasemdakerfum. Mikið magn frétta og upplýsinga er nú að finna á netinu í aðdraganda kosninga til Alþingis þann 25. september nk. Markmið átaksins er að fá fólk til að staldra við og velta fyrir sér upplýsingum áður en það myndar sér skoðun eða skrifar athugasemdir og deilir upplýsingunum áfram á netinu. 

Þriðjungur myndaði sér ranga skoðun vegna villandi upplýsinga

Niðurstöður könnunar, sem framkvæmd var af Maskínu fyrr á þessu ári fyrir fjölmiðlanefnd, sýna að elsti og yngsti aldurshópurinn á erfiðara með að koma auga á falsfréttir en þátttakendur í öðrum aldurshópum. Þá efast 80% þátttakenda um sannleiksgildi upplýsinga á netinu og þriðjungur segist hafa myndað sér ranga skoðun á opinberri persónu vegna villandi upplýsinga.

Fimmtungur hætti að taka þátt í umræðum vegna ögrunar í athugasemdakerfum

Þar sem netið er mikilvægur samskiptavettvangur í lýðræðislegri umræðu má telja alvarlegt ef hluti fólks telur sig verða fyrir áreitni, neteinelti eða haturstali á netinu og veigrar sér þess vegna við að taka þátt í opinberri umræðu. Það vekur því athygli að um fjórðungur þátttakenda í könnun Fjölmiðlanefndar segist hafa upplifað af eigin raun hatursfull ummæli á netinu á síðustu 12 mánuðum og 20% þeirra segjast hafa hætt að taka þátt í umræðum á netinu í kjölfar háðs og ögrunar.

Stoppa, hugsa, athuga

Boðskapur átaksins er einfaldur: Stoppaðu, hugsaðu þig um og athugaðu sannleiksgildi upplýsinga sem þú sérð á netinu. Staldraðu við áður en þú skrifar athugasemd við fréttir eða færslur eða deilir upplýsingum áfram. Almenningur getur skoðað stutt myndband og tekið þátt í léttum spurningaleik til að kanna færni sína á netinu, auk þess sem hægt er að leita frekari upplýsinga um viðfangsefnið á vef Fjölmiðlanefndar.

Facebook styður við átakið með því að birta efnið endurgjaldslaust

Árvekniátakið er að erlendri fyrirmynd. Horft var til átaks sem Medietilsynet í Noregi var með í aðdraganda þingkosninganna þar í landi nú í september. Þá hefur einnig verið litið til árvekniátaka bæði á  Írlandi og Bretlandi. Átakið er tímabundið og fer einungis fram á Facebook og Instagram í tilefni kosninga til Alþingis og er því ætlað að ná til notenda þessara samfélagsmiðla hér á landi. Facebook styður við átakið með því að birta efnið endurgjaldslaust, með sama hætti og gert var í árvekniátaki Fjölmiðlanefndar, Embættis landlæknis og Vísindavefsins þegar beint var sjónum að COVID-19 falsfréttum vorið 2020.

Taktu þátt í léttum spurningaleik og kannaðu færni þína: