Stoppa, hugsa, athuga árvekniátak Fjölmiðlanefndar fer vel af stað og stefnan sett á að gefa enn frekar í á lokasprettinum fyrir Alþingiskosningar 25. september. „Dagarnir í aðdraganda kosninga eru gríðarlega mikilvægir því þá taka margir lokaákvörðun um hvernig eigi að nýta kosningaréttinn. Þessi mikilvæga ákvörðun í sérhverju lýðræðisríki er tekin í umhverfi þar sem mikið magn upplýsinga er að finna sem koma úr ólíkum áttum. Því skiptir máli að minna á að gott er að staldra við og beita gagnrýnni hugsun þegar greina þarf mismunandi upplýsingar sem verða á vegi fólks í adraganda kosninga,“ segir Skúli B. Geirdal verkefnastjóri hjá Fjölmiðlanefnd.

„Markmiðið með átakinu er að benda fólki á að það verður sjálft að leggja mat á gæði þeirra upplýsinga sem á vegi þeirra verða. Það eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga og geta hjálpað fólki að greina þær upplýsingar sem það sér. Áherslan í árvekniátakinu er að efla vitund almennings um þessi atriði og minna á mikilvægi þess að staldra við, hugsa og athuga málið þegar það sér ýmiskonar efni á netinu,“ segir Skúli.
Hugsanlegar ógnir við framkvæmd kosninga sem hér geta verið undir varða m.a. persónuvernd, upplýsingaóreiðu, netöryggi eða þjóðaröryggi.
Samráðshópur um vernd einstaklinga í aðdraganda kosninga
Tækniþróun síðustu ára og reynslan af fyrri kosningum hafa kallað á viðbrögð við þeim hugsanlegum áskorunum sem geta komið upp í aðdraganda kosninga. Fjölmiðlanefnd, Fjarskiptastofa og netöryggissveitin (CERT-IS), landskjörstjórn og Persónuvernd hafa því sett á laggirnir samráðshóp um vernd einstaklinga í aðdraganda kosninga. Meginmarkmið samráðshópsins er að tryggja að stjórnvöld, samkvæmt þeim lagaramma sem hvert um sig starfar eftir, fái viðeigandi upplýsingar um atriði sem geri þeim kleift að bregðast við, eins fljótt og auðið er, ef metið er að uppi séu aðstæður sem viðeigandi stjórnvöld þurfi að bregðast við. Hugsanlegar ógnir við framkvæmd kosninga sem hér geta verið undir varða m.a. persónuvernd, upplýsingaóreiðu, netöryggi eða þjóðaröryggi.

Mikilvægt að staldra við áður en athugasemd er skrifuð eða upplýsingum deilt
Í skýrslum Fjölmiðlanefndar um miðlalæsi á Íslandi kemur fram að þriðjungur segist hafa myndað sér ranga skoðun á opinberri persónu vegna villandi upplýsinga og 80% efast um sannleiksgildi upplýsinga á netinu. „Þessvegna er lögð áhersla á netið og samfélagsmiðla í þessu tímabundna árvekniátaki. Við sjáum þá einnig að háðung og ögranir í athugasemdakerfum höfðu þau áhrif að helmingur varð varkárari í að lýsa skoðunum sínum, 33% tóku frekar þátt í lokuðum hópum og 20% hættu að taka þátt. Þetta eru niðurstöður sem kalla á að við bregðumst við öll sem eitt og öxlum ábyrgð á okkar nethegðun. Markmið átaksins er að fá fólk til að staldra við og velta fyrir sér upplýsingum áður en það myndar sér skoðun eða skrifar athugasemdir og deilir upplýsingunum áfram á netinu. Þannig náum við að vera skrefi nær því að skapa umhverfi á netinu fyrir opna lýðræðislega umræðu þar sem allir geta tekið þátt,“ segir Skúli.

Aukið gagnsæi hjálpar okkur að leggja mat á upplýsingar
Þegar að við lesum úr upplýsingum er mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvaðan þær koma og hvaða hagsmunir liggja þar að baki. Eru þetta upplýsingar frá stjórnmálaflokki eða öðrum sem eiga hagsmuna að gæta eða eru þær settar fram í ritstýrðum fjölmiðlum sem stundar faglega blaða- og fréttamennsku og er ætlað að vera hlutlægur? Í aðdraganda þessara kosninga hefur almenningur einnig úrræði eins og t.d. Ad Library hjá Facebook þar sem hægt er að fá nánari upplýsingar um auglýsingar, auglýsendur og þá upphæð sem varið er í auglýsingar á Facebook og Instagram Þetta var ekki raunin fyrir síðustu kosningar, en eykur gagnsæið til muna á þessum miðlum og hjálpar almenningi að leggja mat á þær upplýsingar sem birtast á netinu,“ segir Skúli.
Nánari upplýsingar um árvekniátakið má finna á vef Fjölmiðlanefndar ásamt fróðlegum spurningaleik.